152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:30]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um þá tillögu okkar í minni hlutanum að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum fylgi frítekjumarki atvinnutekna hjá eldra fólki núna um áramótin, hækki upp í 200.000 kr. Þetta er engin bylting í sjálfu sér. Þetta er ekki sérlega útgjaldafrek tillaga, sérstaklega ekki miðað við aðrar breytingar sem orðið hafa í meðförum þingsins á þessum bandormi. Með þessu værum við fyrst og fremst að senda ákveðin skilaboð um að öryrkjar verði ekki skildir eftir. Þetta yrði þá fyrsta skrefið í þeirri endurskoðun sem talað hefur verið um að standi fyrir dyrum. Ég held að þetta væri ofboðslega mikilvægt og ég vona að við getum aðeins gleymt því úr hvaða flokkum við komum, hverjir eru í meiri hluta og hverjir í minni hluta, og lagt einhverja „real-pólitík“ til hliðar og sameinast um þetta.