152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Við gerum hér töluvert umfangsmiklar breytingar í nálgun á lögum um opinber fjármál. Ég vil nefna það sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar nefndi hér fyrr í umræðunni, í tengslum við átakið Allir vinna, að það verði að vera hægt að horfa á báðar hliðar peningsins, ef svo má segja; að fyrir okkur þingmenn komi inn í lög um opinber fjármál mekanismi þar sem okkur verður gert auðveldara að átta okkur á afleiddum áhrifum lagasetningar þannig að við sjáum til að mynda hvaða tekjur ríkissjóður fær af því að hækka frítekjumark eldri borgara eða örorkulífeyrisþega. Í ljósi þess að við erum að innleiða þessar breytingar núna, sem eru til samræmis við uppgjörsstaðla, sem er sjálfsagt mál, vil ég bara benda á að við verðum að fara í þá vinnu að annaðhvort breyta lögum um opinber fjármál eða setja sjálfstæðar reglur um það að við þingmenn sjáum heildarmyndina af áhrifum lagasetningar.