152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ef ég les þetta atkvæðakraðak rétt erum við að tala um framlengingu á átakinu Allir vinna sem liggur fyrir af hálfu fjármálaráðuneytisins að sé þensluhvetjandi, óþarfi fyrir þessa atvinnugrein og mjög kostnaðarsamt. Þetta er samt ákveðið vegna þess að skiljanlega er átakið vinsælt og er talið vinna gegn skattsvikum þótt við höfum engar greiningar til að styðja við þær staðhæfingar, sem er auðvitað merkilegt út af fyrir sig. Við í Pírötum sitjum hjá. Við greiðum ekki atkvæði með þessari ákvörðun og við setjum spurningarmerki við þessa forgangsröðun. Það má kosta 7 milljarða að fara í sporslur við uppbyggingu heimila fólks og byggingariðnaðinn en það má ekki kosta tæpan milljarð að bregðast við miklum geðrænum vanda á Íslandi. Þetta er bara mjög furðuleg forgangsröðun, virðulegi forseti. 7 milljarðar hér, (Forseti hringir.) en 150 milljónir til að bregðast við gríðarlegum áskorunum þegar kemur að geðrænum vanda. Það er mjög furðuleg forgangsröðun.