152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

staða heilbrigðiskerfisins.

[15:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Sóttvarnatakmarkanir hafa eðlilega miðað við að heilbrigðiskerfið ráði við vandann en það hefur hins vegar haft afleiðingar víða fyrir fólk og fyrirtæki. Það eru því mikil vonbrigði að ríkisstjórnin með öll sín verkfæri, fjármagn og aðgengi að sérfræðingum, hafi ekki birst fyrir helgi með neinar nýjar lausnir eða aðgerðir, hvorki fyrir heilbrigðiskerfið né fyrirtæki á vonarvöl. Stóra verkefnið er auðvitað fullfjármagnað og vel mannað heilbrigðiskerfi og þar á ríkisstjórnin satt að segja mikið verk óunnið þrátt fyrir að hafa haft rúman tíma. Heilbrigðisstarfsfólk hefur margt verið undir ómennsku álagi, jafnvel löngu áður en Covid reið yfir, í vinnuumhverfi sem víða er undirmannað. Og stór ástæða álagsins á heilbrigðiskerfið er áralöng vanfjármögnun sem gerir vandann sífellt stærri. Það er nefnilega ekki nóg að fjármagna núna beinan kostnað vegna heimsfaraldurs. Það þarf að fara að bæta starfskjör og starfsumhverfi til að laða fólk að og koma í veg fyrir að það hrökklist úr starfi. Mönnun tekur þó vissulega tíma en nú eftir tvö ár með Covid, þar sem vandinn hefur e.t.v. birst enn skýrar en áður, skortir algerlega framtíðarsýn og alvöruaðgerðir. Það er sérkennilegt og skammsýnt líka að ríkisstjórnin hafi ekki bætt kjör heilbrigðisstarfsfólks, a.m.k. greitt því almennilegt álag á laun meðan ástandið varir eins og hefur verið gert í öðrum löndum. Það er líka óskiljanlegt að ríkisstjórnin hafi hafnað því að veita þá 2 milljarða í rekstur sjúkrahúsanna sem vantar bara til að viðhalda núverandi þjónustu, ekki til að bæta í.

Ég átta mig á því að heilbrigðisráðherra er hér í hliðarsal og tekur þátt í umræðu á morgun um heilbrigðismál. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað er eiginlega planið? Býður ríkisstjórnin virkilega ekki upp á neinar hugmyndir eða lausnir til að styrkja heilbrigðiskerfið sem kæmu í veg fyrir viðvarandi skerðingu á lífi fólks og möguleikum fyrirtækja til að dafna áfram?