152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

Persónuvernd.

[15:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Það kemur raunar fram í bréfinu sem Kári birtir að um bréfaskipti sé að ræða og hæstv. forsætisráðherra hefur augljóslega sent Kára Stefánssyni fleiri bréf en það sem hann birtir vegna þess að þar birtist ekkert um sjálfstæði stofnunarinnar Persónuverndar. En þar liggur hundurinn einmitt grafinn, virðulegi forseti. Sjálfstæði Persónuverndar hlýtur að vera mikilvægur þáttur í lýðræðissamfélagi, að stofnanir njóti þess trausts frá ráðamönnum að þeir virði það að ef fólk er ósátt við niðurstöðu Persónuverndar sé hægt að fara með þá niðurstöðu fyrir dómstóla.

Það kemur fram í þessum úrskurði Persónuverndar, sem hæstv. ráðherra segist hafa lesið, að engin skrá sé til um þessi blóðsýni hjá Landspítalanum. En gott og vel. Ég velti fyrir mér hver tilgangurinn var með þessu bréfi og hvers vegna forsætisráðherra ákveður að tjá sig um afstöðu sína gagnvart úrskurði sjálfstæðrar stofnunar við forstjóra fyrirtækisins sem úrskurðurinn fjallaði um.