152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

heimilisuppbót almannatrygginga.

[15:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, en ég verð að benda honum á að það eru þúsundir sem bíða. Það er hætt að taka við umsóknum. Þegar hann talar um húsnæðisbótakerfið þá er það skerðingarkerfi. Hver einasta króna skerðir líka húsnæðisbæturnar. Ef við tölum um hlutdeildarlánin, sem eiga að vera svo rosalega frábær, þá er ekki til eitt einasta hús sem stendur undir því, nema jú kannski einhvers staðar úti á landi. Þá er verið að þvinga fólk annaðhvort til að flytja út á land eða flytja af landi brott og búa til útlaga. Það hlýtur að vera kominn tími til að þessi ríkisstjórn sjái til þess í eitt skipti fyrir öll að endurskoða kerfið. Hætta þessum skerðingum og leyfa fólki að búa þar sem það vill og ef það fer til útlanda þá hlýtur það að vera brot á einhverjum lögum að mismuna eftir því hvort það býr á Íslandi eða hvort það vill búa í landi innan Evrópu. Það getur ekki staðist að hægt sé að skerða bara vegna þess hvar maður býr, ekki eftir því hvernig framfærslan er.