152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir.

[15:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni góðar spurningar. Hann veltir upp þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram. Fyrst vil ég segja varðandi PCR-prófin að þau hafa verið mikilvægur liður í sóttvarnaráðstöfunum okkar, en ég fagna öllum þeim ólíku sjónarmiðum sem koma fram um það hvernig við getum beitt öllum tiltækum ráðum sem við nýtum, með tilliti til sóttvarna. Eðli máls samkvæmt er ég sem heilbrigðisráðherra áfram með augun á þeim bolta. Þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir verðum við að taka inn í myndina að við erum á ólíkum stað í bylgjunni, ef við tökum til að mynda Spán. Við erum mjög dugleg, í samráði við sóttvarnayfirvöld, sóttvarnalækni, að skoða hvað er að gerast annars staðar. Já, vissulega er kostnaður við PCR-prófin en þau eru mikilvægur liður í ráðstöfunum okkar og við eigum ekki að láta þær mikilvægu ráðstafanir útiloka þær aðgerðir sem við förum í með Landspítalanum, þar sem meginuppistaðan í meðferð Covid-sjúklinga er, þ.e. göngudeildin. Við höfum farið í fjölmargar aðgerðir í samvinnu við spítalann og heilbrigðiskerfið allt. Ég get komið inn á allar þær ráðstafanir hér í seinna andsvari en það kostar að semja við sjálfstætt starfandi geira sem sýna hér samfélagslega ábyrgð og koma inn og hlaupa undir bagga með spítalanum. Ég legg áherslu á að við sýnum þessa samvinnu í verki með spítalanum á meðan staðan er eins og hún er.