152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir.

[15:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það kom ýmsum á óvart að með nokkurra daga millibili var annars vegar hafnað þeirri tillögu að fresta skólahaldi í grunnskólum landsins og síðan nokkrum dögum síðar, nánar tiltekið sl. föstudag, var ákveðið að skella öllu í lás með tíu manna samkomutakmörkunum og fleiru á þeim nótum.

Mig langar í því samhengi til að forvitnast um hvernig ráðherra metur rannsóknarskyldu sína. Hvaða rannsókn hefur ráðherra innt af hendi þegar kemur að íþyngjandi ákvörðun hans um réttindi og skyldur fólks í nafni sóttvarna? Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að þessu til að auðvelda okkur almennum þingmönnum að glöggva okkur á með hvaða hætti þær aðgerðir eru ákvarðaðar sem skipta svo miklu máli fyrir borgara þessa lands.