152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

umhverfisáhrif kísilvers í Helguvík.

[15:36]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Skipulagsstofnun lauk um síðustu áramót mati á umhverfisáhrifum kísilvers Arion banka í Helguvík og í síðustu viku var upplýst um undirritaða viljayfirlýsingu um hugsanlega sölu verksmiðjunnar. Helstu niðurstöður þess mats eru, eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Að því gefnu að innleiðing endurbóta verði farsæl telur Skipulagsstofnun að áhrif við rekstur 1. áfanga á loftgæði“, þ.e. eins ljósbogaofns, „verði nokkuð neikvæð.“ […] „En áhrif fullrar framleiðslu á loftgæði“, fjögurra ofna líkt og stefnt er að, „gæti verið talsvert neikvæð.“

Þegar rýnt er í skýrsluna kemur eitt og annað í ljós sem í mínum huga samræmist illa sjónarmiðum dagsins í dag um loftslagsmál. Má sem dæmi nefna að í verksmiðjunni verða brennd 155.000 tonn af kolum á ári miðað við fullan rekstur. Þetta yrði einn allra stærsti mengunarþáttur Íslands á sviði iðnaðar. Framleiðslan veldur einnig losun koldíoxíðs vegna bruna á eldsneyti af jarðefnauppruna sem nemur allt að 100.000 tonnum á ári miðað við einn ljósbogaofn og allt að 400.000 tonnum á ári miðað við fjóra ofna.

Þá má einnig nefna efni eins og kvikasilfur og arsen sem verða til við framleiðslu í þessari verksmiðju. Mörg þessara efna eiga þar að auki sameiginlegt að valda ertingu á öndunarfærum og í kjölfarið öndunarerfiðleikum, sérstaklega hjá þeim sem veikir eru fyrir.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra út í afstöðu hennar til þessa mats á umhverfisáhrifum og viljayfirlýsingarinnar. Telur ráðherra að endurræsing kísilversins geti samræmst framtíðarsýn og stefnu þjóðarinnar í loftslagsmálum? Er hún í samræmi við loftslagsstefnu Vinstri grænna? Samrýmist hún hagsmunum íslensku þjóðarinnar?