152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

umhverfisáhrif kísilvers í Helguvík.

[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við rifjum þetta aðeins upp. Þessi verksmiðja var starfrækt frá nóvember 2016 til september 2017 þannig að í raun og veru er hv. þingmaður að lýsa aðdraganda þess að hún fer af stað. Það er sagan og henni verður ekki breytt. Mér sýnist hins vegar, hreinlega út frá því sem ég hef lesið um þetta mál í fjölmiðlum, vera allvíðtæk samstaða hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar og vilji til að vinna þetta mál öðruvísi og ég held að það sé mikilvægt að bæjarstjórnin stígi fram ef samstaða er um málið innan bæjarstjórnar og leiti leiða til þess. Eftir því sem ég heyrði hefur fólk eðlilega áhyggjur af mengandi starfsemi í nágrenni við byggðina eins og þarna er, alveg óháð öðrum áhrifum eins og loftslagsáhrifum. Ég held því, vegna þess að þarna liggur skipulagsvaldið og vegna þess að þetta varðar nærumhverfið, að það skipti miklu máli að bæjarstjórnin stígi fram í þessu máli þó að forsætisráðherra hafi nú ekkert umboð til að segja henni fyrir verkum hér.