152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[15:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Hæstv. forseti. Forseti hefur nú upplýst að hæstv. fjármálaráðherra sé erlendis. Mig langar að rifja upp að fyrir 54 mínútum minnti forseti okkur á að fjarvistarskrá lægi frammi eins og alltaf er gert við upphaf þingfundar. Ég prentaði hana út. Á henni er eitt nafn. Það er ekki nafn Bjarna Benediktssonar, hæstv. fjármálaráðherra. Hvernig stendur á því, herra forseti, að haldin sé skrá yfir fjarvistir þingmanna sem ekki endurspeglar raunveruleikann, sem endurspeglar ekki einu sinni vitneskju hæstv. forseta sem leggur fjarvistarskrána fram? Ég held í ljósi þess hversu brýn málin eru og í ljósi þess að það hefur legið fyrir frá desemberlokum að við myndum koma saman til þingfundar þennan dag í janúar að við eigum heimtingu á að vita í hvaða erindum ráðherrann er. Ef ráðherrann er í einkaerindum, ef ráðherrann er í fríi, þá er það móðgun.