152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[15:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar að beina því til hæstv. utanríkisráðherra, sem er hér fyrir hönd fjármálaráðherra, sem er fjarverandi eins og komið hefur fram, að það verði einhver tenging inn í fjármálaráðuneytið á meðan þessi umræða er í gangi. Með fullri virðingu fyrir hinum öfluga utanríkisráðherra okkar þá þykir mér ólíklegt að ráðherrann geti svarað spurningum sem snúa að smáatriðum og fara á dýptina hvað það mál varðar sem hér liggur fyrir. Það er auðvitað mikill skaði að ráðherrann sjálfur sé ekki til að mæla fyrir málinu, en það skín í gegn að þetta er svona álitin hálfgerð sjálfvirkni af því að við erum hér þann 17. janúar að mæla fyrir gjalddaga sem var þann 15. janúar. Þarna segir m.a., með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir því að þær greiðslur sem þegar hafa verið inntar af hendi á gjalddaga 1. janúar 2022 komi til endurgreiðslu.“

Þetta er alveg ofsalega mikil kerfissýn í þessu máli og greinilega álitið að það sé fyrst og fremst verið að sækja stimpilinn en ekki fara í efnislega umræðu. (Gripið fram í: Nákvæmlega.)