152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[15:59]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins fá að blanda mér inn í þessa umræðu vegna þess að ég get tekið undir meginþungann í þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram. Við þingmenn höfum kallað mikið eftir því að þingið sé svolítið skilvirkt almennt þegar við erum að tala um Covid-mál. Það á ekki bara við um efnahagsráðstafanir eða útgjöld ríkisins sem þarf að samþykkja í þessum sal heldur líka sóttvarnaráðstafanir og það allt saman og ég tek undir það sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson benti á áðan um fjarveru ráðherra, t.d. á þessum stóra ríkisstjórnarfundi þar sem var verið að kynna hertar sóttvarnaráðstafanir, og svo það að sjálfur fjármálaráðherra sé ekki hér til að hlusta á ábendingar okkar í stjórnarandstöðunni þegar kemur að þessu máli sem á að liðka til fyrir þeim aðilum sem verða einna verst úti rekstrarlega séð í faraldrinum, í þeim takmörkunum sem nú eru. Mér finnst það bagalegt að ráðherrar almennt sýni ekki þinginu meiri virðingu þegar kemur að þessum málum.