152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[16:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp og tek heils hugar undir það sem fram hefur komið um þessi málefni. Þetta gengur ekki upp. Ráðherra sem hefur með þessa málaflokka að gera er of seinn með málið inn í þingið — eins og komið hefur fram var gjalddaginn 15. og nú er 17. Á sama tíma og 22.000 manns eru í einangrun og sóttkví, bullandi veira, þá mætir hann ekki einu sinni. Samt er hann að leggja fram frumvarp til að bæta fyrirtækjum það að þurfa að loka. Vinnubrögðin eru stundum svo furðuleg að maður hugsar alltaf: Það er ekki hægt að hafa þetta verra, en það verður alltaf verra. Það virðist ekki vera neinn vilji hjá þessari ríkisstjórn til að reyna að breyta vinnubrögðum þannig að við sjáum eitthvað fram í tímann, hvað er í gangi á hverjum tíma. Ef svo mikið lá á þessu frumvarpi af hverju var þingið bara ekki kallað saman fyrir helgi? Þá hefði fjármálaráðherra kannski getað verið hérna.