152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[16:06]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um viðspyrnustyrki. Mun ég nú fara yfir efnisatriði frumvarpsins. Í frumvarpinu felast tillögur sem miða að því að auðvelda fyrirtækjum í veitingarekstri með meginstarfsemi í flokki II eða III samkvæmt 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald að standa í skilum og styrkja áframhaldandi rekstrargrundvöll þeirra.

Lagt er til að heimila frestun á staðgreiðslu launa og tryggingagjalds á allt að tveimur gjalddögum á tímabilinu 1. janúar til 1. júní 2022. Þeim greiðslum sem frestað kann að verða skal skipt á fjóra gjalddaga frá 15. september til 15. desember 2022 að uppfylltum skilyrðum frumvarpsins fyrir þá veitingastaði sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá er með frumvarpinu lagt til að umsóknarfrestur vegna viðspyrnustyrkja fyrir nóvembermánuð 2021 verði framlengdur til 1. mars 2022 og frestur til að sækja um viðspyrnustyrki vegna nóvembermánaðar 2021 var einungis einn mánuður þar sem hinn almenni umsóknarfrestur, samkvæmt lögunum um styrkina, rann út 31. desember sl. Sá frestur skýrðist af þeim tímabundna ramma sem í gildi var um ríkisaðstoð við gildistöku laga um viðspyrnustyrki en sá rammi hefur nú verið framlengdur til 30. júní á þessu ári. Nokkrir rekstraraðilar sem ætluðu að sækja um styrkina settu sig í samband við ráðuneytið, og reyndar þáverandi fjármálaráðherra, sem er ágætlega inni í þessum málum, svo að það sé sagt hér, og óskuðu eftir því að umsóknarfresturinn verði framlengdur vegna þess að ekki náðist að ganga frá umsókn áður en fresturinn rann út. Rétt þykir að koma til móts við þessa aðila og lengja umsóknarfrestinn og hæfilegt þykir að hann verði framlengdur til 1. mars 2022.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er hluti af aðgerðum stjórnvalda þar sem haldið er áfram að styðja við fólk og fyrirtæki og skapa forsendur fyrir öfluga viðspyrnu að loknum heimsfaraldri kórónuveirunnar. Sóttvarnaaðgerðir síðastliðinnar viku og vikna, auk þeirra sem nú eru í gildi, hafa leitt til verulegs samdráttar í tekjum margra fyrirtækja í veitingarekstri en frestun á skilum á staðgreiðslu launa og tryggingagjalds er ætlað að bæta lausafjárstöðu þeirra rekstraraðila sem hana nýta á fyrri hluta ársins 2022. Heimildin nær til að fresta gjalddögum innan árs og gerir rekstraraðilum þess vegna kleift að fresta útgjöldum þar til síðar á árinu. Áætlað umfang á frestuðum greiðslum á fyrstu sex mánuðum ársins fram á síðari hluta þess nema um hálfum til 1 milljarði kr. og það mat byggir á umfangi sambærilegra úrræða árin 2020 og 2021 og hlutdeild fyrirtækja í veitingarekstri í nýtingu þeirra. Framlengdur umsóknarfrestur vegna viðspyrnustyrkja fyrir nóvember 2021 mun hafa jákvæð áhrif á þá rekstraraðila sem ekki náðu að skila umsókn um styrkinn áður en gildandi umsóknarfrestur rann út.

Þá vík ég að áhrifum frumvarpsins á ríkissjóð. Frestun á staðgreiðslu launa og tryggingagjalds hefur þau áhrif að þær tekjur ríkissjóðs tefjast innan ársins. Staðgreiðsla launa inniheldur einnig útsvarsgreiðslur til sveitarfélaga og ríkissjóður mun fjármagna þann hluta sem tilheyrir sveitarfélögunum þannig að útsvarsgreiðslur berist til þeirra á réttum tíma. Þetta hefur í för með sér aukinn fjármagnskostnað fyrir ríkissjóð en aukinn viðnámsþróttur þeirra fyrirtækja sem nýta sér úrræði er einnig til þess fallinn að auka umsvif og skattgreiðslur síðar á árinu. Áhrif á ríkissjóð eru því ekki að fullu kunn en í öllu falli óveruleg. Ætla má að heildaráhrif af framlengingu umsóknarfrests viðspyrnustyrks vegna a.m.k. 40% tekjufalls í nóvember 2021 verði ekki hærri en 150 millj. kr.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.