152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[16:24]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég skildi hv. þingmann rétt var hann að velta því fyrir sér hvort það þyrfti fleiri ráðherra til að svara fyrir frumvarpið vegna þess að samráð var haft við þá. Alla jafna er samráð haft við ýmis ráðuneyti þegar verið er að vinna frumvörp án þess að þeir ráðherrar séu hér. Það sem snýr að samráði við sveitarfélögin, þá er væntanlega verið að vísa í það að þegar gjalddögum er frestað getur það haft áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga og við segjum hér að við ætlum að grípa þann kostnað fyrir sveitarfélögin líka og ekki láta sveitarfélögin sitja upp með hann.

Varðandi uppgefið útreiknað endurgjald viðkomandi rekstraraðila þá snýst þetta sem sagt um það, uppgefið útreiknað endurgjald viðkomandi rekstraraðila, en ekki það sem er gefið upp á vef Skattsins. Leiðarljósið hvað varðar arð og þess háttar í þessu frumvarpi er einfaldlega það sem í mínum huga er nokkuð skynsamlegt og eðlilegt sem er bara þetta; hugmyndin um að þú sért ekki að taka út arð og þiggja styrk úr ríkissjóði. Það er verið að reyna að beina þessum ívilnunum og aðstoð til fyrirtækja með því að bæta lausafjárstöðu þeirra og koma í veg fyrir að þau þurfi að segja upp starfsfólki vegna þeirrar stöðu sem uppi er og vegna þeirra ákvarðana sem stjórnvöld taka og reynt að girða fyrir það að fyrirtæki sem ekki þurfa á slíkri aðstoð að halda séu innan þessa úrræðis. Þess vegna eru þessi sérstöku atriði í frumvarpinu.