152. löggjafarþing — 21. fundur,  17. jan. 2022.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[22:59]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í máli annarra sem hér hafa talað er alveg ljóst að það hefði verið hægt að klára þetta mál fyrr. Það er ekki þannig að brýnt sé að klára þetta núna nema einfaldlega vegna þess að ekki var gengið frá málinu þegar hefði átt að gera það. Þetta eru mikilvægar aðgerðir sem kallað hefur verið eftir af hálfu hagsmunaaðila og þess vegna styðjum við að sjálfsögðu þetta mál. En mig langar til að benda á ástæðu þess að við tökum okkur tíma í að ræða málin hér á þinginu. Ég tel það hafa komið fram og vera orðið ljóst af reynslunni það sem af er þessu þingi að meiri hlutanum er kannski ekki mjög umhugað um að vita hvað við í minni hlutanum höfum um málin að segja. En það erum ekki bara við sem komum að umræðu og vinnslu mála þegar þeim er gefinn fullnægjandi tími heldur eru það m.a. hagsmunaaðilar. Þess vegna vekur það áhyggjur þegar mál eru afgreidd með þessum hætti því að það er ekki nóg með að það sé tiltekinn hópur sem er tekinn fyrir, ákveðnir aðilar, það sé afmarkað til hverra þessi úrræði ná, heldur er á síðustu stundu bætt inn fleiri aðilum. Þannig er nauðsynlegt að skoða þetta út frá ýmsum sjónarhornum sem eru ekki einu sinni til staðar hér í þingsal eða í nefndinni. Nú sit ég ekki í efnahags- og viðskiptanefnd og mín bókhaldsþekking og annað takmarkast við mína pínulitlu lögmannsstofu sem ég rak til skamms tíma. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað heyra hvað aðilar mér fróðari hefðu um þetta að segja, líka þeir aðilar sem eru undanskildir í þessum úrræðum eins og staðan er, og síðan að heyra um afleiðingar annarra breytinga sem lagðar eru til af hálfu meiri hlutans.

Það er mikilvægt að stuðningur af þessu tagi nái til þeirra aðila sem þurfa mest á því að halda. Í raun þurfum við hér í dag bara að trúa því og treysta að þetta sé nógu úthugsað til að svo verði. Mig langaði bara að árétta þetta við meiri hlutann, að mál fái umræðu og séu ekki keyrð í gegn á síðustu stundu snýst ekki bara um það að við í minni hlutanum fáum að koma með okkar hugmyndir og tillögur. Þetta snýst um að þjóðin, að þeir aðilar sem málin varða hafi möguleika til þess að koma að þeim og víkka út skilning okkar á því sem lagt er til. Það var í sjálfu sér ekki fleira.