152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Áður voru útlagar í íslensku samfélagi afbrotamenn. En nú er kominn hópur fólks sem gert hefur verið útlægt úr okkar ríka samfélagi fyrir það eitt að veikjast, slasast eða bara fyrir vera aldrað fólk. Það eru stórir hópar sem hafa það töluvert verr andlega og líkamlega, heilsa þeirra fer hratt versnandi og þá einnig möguleikar þeirra til að mæta óvæntum útgjöldum og ofan á koma áföll vegna Covid-19. Húsnæðismálin hjá þessum útlögum í íslensku samfélagi fara hratt versnandi og þá sérstaklega hjá þeim sem eru á leigumarkaði. Sumir fá rétta framfærslu á laun til að lifa mannsæmandi lífi, en það á ekki við þennan hóp. 200 öryrkjar eru gerðir útlægir af heimilum sínum vegna veikinda, fluttir hreppaflutningum á hjúkrunarheimili fyrir aldrað fólk. Eða ef þeir reyna að flýja land þá koma refsingar í formi skerðingar á heimilisuppbót og öðrum bótum og styrkjum. Þetta fólk skal ekki fá að lifa betra lífi erlendis: Nei, þið fáið ekki að flýja land, gerast útlagar, án þess að stóri bróðir, ríkisstjórnin, refsi ykkur fjárhagslega þannig að þið lendið í sárafátækt. Aldrað fólk borgar alla sína tíð í lífeyrissjóð. En hvernig er komið fram við það? Jú, það er líka flutt hreppaflutningum á sjúkrastofnanir úti á landi og ástæðan er sögð vera Covid-19. Og einnig er hirtur af þeim stór hluti lífeyrissjóðs sem er lögþvingaður, eignavarinn sparnaðar. Fráflæðisvandi, ljótasta orð íslenskrar tungu, er notað um eldra fólk sem er veikt inn á spítala. Er ekki kominn tími til að hætta því að nota svona ljótt orð um okkar aldraða fólk sem hefur byggt upp þetta land?