152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Veitingaaðilar hafa staðið frammi fyrir mjög erfiðri stöðu undanfarin tvö ár og þrátt fyrir það þá held ég að ekki nokkrum manni hafi dottið það í hug eða ætlast til þess yfir höfuð að fá allt tekjutap þessa tímabils að fullu bætt. Hins vegar er staðan þannig að mörgum fyrirtækjum í þessum atvinnugeira hefur blætt verulega þetta tímabil og eigið fé að verða uppurið og jafnvel gengið á sparifé eigenda margra fyrirtækja vegna mjög íþyngjandi aðgerða sem hafa komið hart niður á þeim. Fyrirtækin finna verulega fyrir takmörkunum sem í gildi hafa verið en á bak við þau, eins og önnur fyrirtæki í landinu, eru einstaklingar og fjölskyldur.

Hlutabótaleiðin og Hefjum störf nýttust þessum fyrirtækjum nokkuð vel. Hvað varðar aðrar aðgerðir eins og lokunarstyrki eða tekjufallsstyrki þá ber þeim aðilum sem til mín hafa leitað algjörlega saman um að það hafi verið flókin úrvinnsla og miklar kvaðir og að mörgu leyti reyndist ógerlegt að komast í gegnum það svifaseina kerfi án aðstoðar endurskoðanda með tilheyrandi kostnaði. Nýrri fyrirtæki eiga litla von þar sem stuðst er við eldri rekstrartölur sem stundum eru ekki til eða eru ómarktækar þar sem samkomutakmarkanir voru við lýði í kringum upphaf reksturs. Margir furða sig einnig á viðmiðum lokunarstyrkja. Hvers vegna er ekki horft t.d. til sannanlegs kostnaðar, m.a. með því að horfa á reikninga frá því tímabili fyrir húsaleigu, hita, rafmagn og annan rekstrarkostnað sem auðvelt ætti að vera að sannreyna? Á þann hátt fæst betri mynd af raunverulegu tapi sem hægt er að mæta að einhverju leyti.

Virðulegur forseti. Auðvitað horfumst við í augu við erfiða stöðu í kjölfar heimsfaraldurs og þar eru fjölmargar atvinnugreinar undir sem og félagsleg vandamál. Við þurfum að halda áfram að bregðast við. Við stigum hér skref í þinginu í gær. Við þurfum að halda áfram, gera betur og að bregðast mjög hratt við erfiðri stöðu þessara fyrirtækja og atvinnugreina.