152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar hér í dag að gera það að umræðuefni sem ég kom inn á í óundirbúinni fyrirspurn við heilbrigðisráðherra í gær þar sem ég spurði hæstv. ráðherra út í rannsóknarskyldu hans og með hvaða hætti hann hefði sinnt henni í tengslum við ákvarðanir sem snúa að sóttvarnaaðgerðum í tengslum við Covid-19 faraldurinn. Mér þótti svar hæstv. ráðherra tiltölulega rýrt í roðinu hvað þetta varðar. Ég fór í framhaldinu að líta til með því með hvaða hætti minnisblöð sóttvarnalæknis væru aðgengileg. Og vissulega eru þau ínáanleg á netinu á vef Stjórnarráðsins en það kallar á allnokkra handavinnu að tína þau til.

Mig langar til að óska eftir því við hæstv. forseta að þingið taki þetta saman þannig að minnisblöð í heild sinni verði aðgengileg á einum stað fyrir almenning og þingmenn að glöggva sig á og jafnframt að gerð verði greining á því hvenær tillögur hæstv. heilbrigðisráðherra viku frá tillögum sóttvarnalæknis og í hvað atvikum svo var ekki. Það hefur iðulega verið talað um upplýsingaóreiðu í tengslum við aðgerðir stjórnvalda er snúa að sóttvörnum. Það er hægur leikur fyrir hæstv. forseta að hlutast til um það að okkur þingmönnum og almenningi öllum verði þó gert auðveldara að glöggva okkur á þeim upplýsingum sem fyrir liggja, hvernig ákvarðanir eru teknar og rökstuddar og með hvaða hætti hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sinnt rannsóknarskyldu sinni.