152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Eðlilega hafa sóttvarnatakmarkanir miðast við að heilbrigðiskerfið ráði við vandann en þær hafa líka haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bæði fólk og fyrirtæki í öðrum greinum. Stóra verkefnið er auðvitað fullfjármagnað heilbrigðiskerfi og þar á ríkisstjórnin satt að segja mjög mikið verk óunnið. Þau hafa haft nægan tíma til að bregðast við en heilbrigðisstarfsmenn eru orðnir örmagna og þeir sjá ekki fram á sanngjarnar bætur á starfsumhverfi, hvað þá álagsgreiðslur á störf sín.

Þessi staða gerir það að verkum að sífellt er verið að grípa til mjög íþyngjandi aðgerða sem snerta frelsi og atvinnu fólks. Fjöldi fólks hefur misst vinnuna til lengri eða skemmri tíma og þau sem harðast verða fyrir aðgerðum núna er fólk úr menningargeiranum, listageiranum og veitingageiranum. Það er hætt við að þetta fólk muni hreinlega gefast upp og treysti sér ekki til að starfa við þessar greinar og þessa óvissu og þá fjárhagslegu áhættu sem fylgir ef ekki verður gert eitthvað í því. Það kemur fram í nýlegri skýrslu að 20% hafi horfið úr menningargreinum á síðustu tveimur árum, aðallega konur. Eigendur veitingahúsa róa líka lífróður til að halda uppi starfsemi og starfsfólki. Ég vona innilega að þessar nýju aðgerðir, sem verið er að boða, lini eitthvað þær þjáningar en þessi langvarandi óvissa og veiking greinanna myndi hafa mjög alvarleg áhrif á okkur, ekki bara á efnahagslífið og ferðaþjónustuna heldur líka á lífsgæði okkar fólks.

Við skulum hvetja ríkisstjórnina til dáða. Það þarf að ráðast í miklu harðari aðgerðir og hér er ekki bara um lífsgæðamál að ræða, hér er líka um mjög brýnt efnahagsmál að ræða.