152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Þýskalands, sem tók við völdum í byrjun desember, kemur fram að áfram skuli unnið að því markmiði að Evrópusambandið verði eiginlegt sambandsríki. Þetta er að vísu ekki fyrsta ákall Þjóðverja um evrópskt sambandsríki en mér vitandi er þetta í fyrsta sinn sem slíkt ratar inn í þýskan stjórnarsáttmála. Þetta eru því mikil tíðindi frá þessu áhrifamikla og fjölmennasta ríki Evrópusambandsins. Þróunin innan Evrópusambandsins hefur óumdeilanlega verið í átt að stórauknum samruna. Engu að síður væri fróðlegt að heyra afstöðu ESB-flokkanna hér á Alþingi, Samfylkingar og ekki síður Viðreisnar, sem var stofnuð einvörðungu vegna afstöðunnar til ESB, til þessara drauma þýskra skoðanasystkina þeirra, drauma um eiginlegt evrópskt sambandsríki. Afstaða Pírata er e.t.v. meira á huldu. Sem sagt: Hvernig hugnast ESB-flokkunum hér á Alþingi hugmyndir um evrópskt sambandsríki og þessi vatnaskil hjá leiðandi ríki í ESB-samstarfinu?