152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að beina sjónum okkar út fyrir landsteinana. Íbúar Tonga, eyjaklasa í Suður-Kyrrahafi, glíma nú við afleiðingar sprengigoss. Tonga er líklega eins langt frá Íslandi og hugsast getur en við getum samt vonandi sett okkur í spor fólksins sem býr þar. Við þekkjum afleiðingar náttúruhamfara og eldgosa, öskufallið, jarðskjálftana og allt raskið sem þeim fylgir. Gleymum ekki íbúunum á Tonga en gleymum ekki heldur Afganistan, landi sem er á barmi hungursneyðar af manna völdum. Getum við sett okkur í spor Afgana? Það er ástæða til að spyrja að því. Ísland hefur átt í náinni samvinnu við stjórnvöld í Afganistan í tæplega tvo áratugi á vettvangi NATO og Sameinuðu þjóðanna. Þar höfum við tekið þátt í uppbyggingu í kjölfar stríðs og reyndar áratugalangra átaka en talibanar hafa aftur náð völdum í Afganistan, þökk sé óskiljanlegum og ófyrirgefanlegum samningi sem Bandaríkjastjórn gerði við þá. Trump teppalagði fyrir brotthvarfið og Biden þurfti ekki annað en að gefa fyrirskipunina og her Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra var á brott. Annar eins afleikur er vandfundinn í sorglegri sögu Afganistans.

Forseti. Það er búið að taka konur úr leik í Afganistan. Allir sem geta hafa flúið land eða eru af illri nauðsyn í stofufangelsi eða felum. Eignir Afganistans eru frystar. Það þýðir að venjulegt fólk getur ekki farið í banka og náð í peningana sína af því að það eru engir peningar í bönkunum. Rúmlega helmingur Afgana, tæplega 25 milljónir manna, þarf á neyðaraðstoð að halda núna og hefur ekki hugmynd um hvaðan næsta máltíð kemur. Eins og alltaf þjást börnin mest og deyja fyrst. Það hefði mátt afstýra þessum hörmungum, þær eru mannanna verk og á þeim ber Ísland líka ábyrgð.