152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Nú hefur allsherjar- og menntamálanefnd hafið endurskoðun á lögum um heiðurslaun listamanna. Það sem slær mig í þeirri vinnu er hinn óljósi tilgangur með heiðurslaununum. Annars vegar eru það þau félagslegu sjónarmið að listamenn eigi takmörkuð lífeyrisréttindi og því sé verið að styðja við þá listamenn sem hafa varið starfsævi sinni til listastarfa. Hins vegar eru það sjónarmið um heiður sem listamanni er veittur fyrir mikinn árangur, jafnt á Íslandi og jafnvel á erlendri grundu. Þessi sjónarmið fara einfaldlega ekki alltaf saman og ég hefði talið mikilvægt að um annað yrði barist á vettvangi stéttarfélaga, inni í þeim hluta. En hins vegar er það þetta gildishlaðna orð, heiður, þegar við erum að veita heiðurslaun. Mig langar að koma inn á þann fjölda pósta sem við fengum hér fyrir jólin er vörðuðu veitingu heiðurslauna. Sögu heiðurslauna má rekja allt til 1890 eða þar um bil og við búum vissulega í öðru samfélagi í dag en við gerðum þá. Bylgjur #metoo-hreyfingarinnar hafa gengið yfir undanfarin ár og því ber að fagna. Nú hef ég fengið marga pósta og margar ábendingar um að ekki sé viðeigandi að sú bylgja nái inn í lista yfir heiðurslaun listamanna. Mig langar því bara að varpa spurningu fram: Hvað er öðruvísi við listamenn en fótboltamenn eða valdamenn í viðskiptalífinu? Af hverju eiga listamenn síður að sæta ábyrgð? Endurskoðun laganna er mikilvæg. Fyrstu skrefin hafa verið stigin og ég vona að við komumst að ásættanlegri niðurstöðu.