152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Við í Viðreisn, þingflokkur Viðreisnar, höfum gert svolítið í því frá því að faraldurinn hófst að kalla eftir því að þingið hafi meiri aðkomu að þeim ráðstöfunum sem gripið er til og hafi hlutverki að gegna þegar kemur að því að fara yfir þau mál. Við fórum fram á það, sem heilbrigðisráðherra varð við á sínum tíma, að hér yrði gefin á tveggja vikna fresti skýrsla almenns eðlis um stöðu sóttvarnamála. En við höfum tekið þetta aðeins lengra með því að senda forseta Alþingis bréf þar sem við óskum eftir því að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, og eftir atvikum aðrir ráðherrar, gefi Alþingi skýrslu samdægurs eða eins fljótt og auðið er í kjölfar þess að tilteknar sóttvarnaaðgerðir eru kynntar eða framlengdar af hálfu stjórnvalda. Þá óskum við eftir því að skýrslugjöf feli í sér upplýsingar um forsendur að baki ákvörðunum, um fyrirhugaðan árangur og áhrif á samfélagið að öðru leyti og að það verði upplýst samdægurs eða eins fljótt og auðið er til hvaða aðgerða verði gripið til að mæta efnahagslegum og félagslegum afleiðingum sóttvarnaaðgerða hverju sinni. Það er ekki bara þingflokkur Viðreisnar sem hefur verið kallað eftir þessu hér í þinginu á undanförnum mánuðum, það hafa fleiri þingmenn gert. Það var eftirtektarvert að heyra afbragðsræðu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar áðan þar sem hann benti mjög réttilega á að ríkisstjórnin hafi klikkað talsvert mikið þegar kemur að því að veita þinginu tækifæri til þess að sýna framkvæmdarvaldinu aðhald.

Svo langar mig aðeins að bregðast við spurningu sem borin var upp af hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur. Mér líkar ekki að Evrópa breytist í eitt miðstýrt og niðurnjörvað sambandsríki en ég kann talsvert betur við það að ríki í Evrópu eigi með sér öflugt samstarf þar sem lýðréttindi, mannréttindi, félagslegt réttlæti og efnahagslegar framfarir eru látin ráða frekar en að sú einangrunar- og þúfnahyggja, sem oft er nefnd í sölum Alþingis, fái að ráða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)