152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Heimilisofbeldi er útbreitt og mjög falið vandamál í íslensku samfélagi líkt og víða annars staðar, enda flókið fyrirbæri. Ofbeldið getur verið andlegt, fjárhagslegt, líkamlegt og kynferðislegt. Þótt áverkar af líkamlegu ofbeldi séu greinanlegri hefur fyrir löngu verið sýnt fram á það að andlegt ofbeldi veldur jafn miklum ef ekki meiri skaða en líkamlegt ofbeldi, en það er erfiðara að sanna það. Oft eru börn í spilinu og börn þurfa ekki sjálf að verða fyrir ofbeldinu eða að verða beint vitni að því til að þjást. Afleiðingar heimilisofbeldis fyrir börn eru alvarlegar og geta náð langt fram á fullorðinsár. Það skiptir því miklu máli að koma með öllum ráðum í veg fyrir að barn þurfi að búa við nokkurs konar ofbeldi. Foreldrum ber samkvæmt lögum skylda til að vernda börnin sín gegn ofbeldi. Þegar a.m.k. eitt foreldri barns er álitið forsjárhæft lætur barnavernd sig málið jafnan ekki varða, enda kemur það í hlut hins hæfa foreldris að vernda barnið gegn ofbeldi, leiki grunur á um það. Vandinn er sá að það kerfi sem foreldrum er gert að leita til, barni sínu til verndar, lítur ekki á málið sem verndarmál í þágu barnsins heldur sem deilu á milli foreldranna. Að lögum eru farnar leiðir til þess að „sætta ágreining“ foreldranna um það sem verður andlag deilunnar, forsjá, búseta og umgengni. Við höfum byggt upp kerfi þar sem börn sem búa við ofbeldi falla á milli skips og bryggju. Þau verða að aukaatriði í máli sem afgreitt er sem deila á milli fullorðinna einstaklinga jafnvel þó að ekki sé ágreiningur um annað en það hvort ofbeldi hafi verið beitt eða ekki.

Í kerfi sem þessu er foreldrum, sem hafa það eitt að markmiði að vernda börnin sín gegn öllu ofbeldi, líkt og lög gera kröfu um, gert með öllu ómögulegt að sinna þeirri lagaskyldu sinni. Því spyr ég: Þegar kerfið horfir á foreldra í þessari stöðu sem jafningja í deilum og sem andstæðinga sem þarf að sætta, hver á þá að passa upp á barnið?