152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Ísland er eyja en ekki eyland í samfélagi þjóða. Það svíður í hjartað þegar maður hlustar á hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur ræða um stöðu mála í Afganistan og um litlu börnin sem búa þar í bullandi hættu alla daga. Við sem búum hér á Íslandi þekkjum þetta ekki, við skiljum þetta ekki. Við vöknum til verka á morgnana, förum með börnin okkar á leikskóla og búum í nánast vernduðu umhverfi. Þegar maður hugsar út fyrir landsteinana blasa við okkur börn í flóttamannabúðum og þau búa ekki við það atlæti sem við teljum eðlilegt og rétt að börnum sé boðið upp á. Mig langar til að hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa aukið við þann fjölda Afgana sem verið er að taka á móti, en það á að taka á móti mæðrum og börnum sem eru á vergangi. Það er auðvitað frábært að það sé að gerast en við getum gert svo miklu meira. Mig langar að nefna móttöku flóttamanna á Íslandi. Margir hverjir búa við mjög slæmt atlæti í gömlu herstöðinni og lítið er um þá hugsað. Það eru örfá sveitarfélög sem eru tilbúin til að taka við flóttamönnum og það er eiginlega til skammar að þannig sé þessi íslenski veruleiki. Ég lít þannig á að við berum öll ábyrgð sem einstaklingar á því hvernig fólki farnast í þessum heimi og við eigum að axla þá ábyrgð.