152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[14:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ákvæði laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, lúta að jafnri meðferð fólks á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar, óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Með frumvarpi þessu er lagt til að við framangreind lög verði bætt mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Verði frumvarpið samþykkt koma lögin til með að samræmast betur lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, en þau fjalla um alla framangreinda mismununarþætti en ekki einungis kynþátt og þjóðernisuppruna. Þá munu báðir lagabálkar ná til sömu mismununarþátta. Þessu til samræmis er lagt til nýtt heiti á lögunum þar sem núverandi heiti takmarkast við þá mismununarþætti sem eru í gildandi lögum. Lagt er til að nýtt heiti verði: Lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af norsku, sænsku og finnsku lögunum um bann við mismunun og enn fremur var gætt samræmis við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, og lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.

Rétt er að geta þess að frumvarp þetta er liður í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi sem Ísland undirritaði 30. mars 2007 og var fullgiltur 23. september 2016.

Herra forseti. Almennt bann við mismunun á grundvelli framangreindra þátta í almennum lögum verður að teljast nýmæli enda þótt öðrum ákvæðum innlendra laga sé einnig ætlað að tryggja jafna meðferð og stuðla að virkri þátttöku fólks á tilteknum sviðum samfélagsins. Nærtækt er að vísa til 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, 233. gr. a og 1. mgr. 180. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Engin breyting er lögð til varðandi þau svið samfélagsins sem lögin ná þegar til en einstök svið eru sérstaklega tilgreind til áherslu. Eiga lögin m.a. við um félagslega vernd, þar á meðal í tengslum við almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, félagsleg gæði, menntun og aðgang að vörukaupum og þjónustu. Sérstaklega er tekið fram að frumvarpið eigi við um húsnæði sem er í boði fyrir almenning.

Með félagslegum gæðum er m.a. átt við tækifæri til að njóta tiltekinna gæða á vegum opinberra aðila eða einkaaðila, svo sem aðgangs að stöðum sem ætlaðir eru almenningi þar sem unnt er að njóta frístunda — er þá átt við sundstaði, skíðasvæði, skautasvell, skipulögð leiksvæði, fjölskyldugarða og bókasöfn, listasöfn, leikhús og ýmsa aðra menningar- og listviðburði. Miðað er við að framangreint eigi við um alla staði sem ætlaðir eru almenningi, hvort sem viðkomandi staður telst vera opinber eða í einkaeigu, en stundum er einfaldlega talað um almannarými í þessu samhengi.

Mikilvægt er að hafa í huga að mismunandi meðferð kann að vera réttlætanleg við vissar aðstæður og ef unnt er að rökstyðja slíka meðferð á málefnalegan hátt með lögmætum markmiðum er ekki um mismunun samkvæmt frumvarpinu að ræða og hvert tilvik þarf að meta fyrir sig.

Virðulegi forseti. Nauðsynlegt er að taka tillit til þess að þeir mismununarþættir sem lagt er til að verði bætt við lögin með frumvarpi þessu eru ólíkir innbyrðis og getur verið þörf á sérreglum hvað einstaka mismununarþætti varðar. Því er lagt til að bætt verði við lögin tveimur nýjum ákvæðum, annars vegar nýju ákvæði um viðeigandi aðlögun vegna fötlunar, sem er þá 7. gr. a, og hins vegar nýju ákvæði um frávik vegna aldurs, 7. gr. b. Sambærilegar sérreglur eru til staðar í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Mismununarþáttunum aldri, trú og lífsskoðun í frumvarpinu er ekki ætlað að hafa áhrif á skipulag skólakerfis eða starfsemi skóla, þar með talið á efni aðalnámskrár á öllum skólastigum. Því er ekki heldur ætlað að hafa áhrif á trúarbragðakennslu eða viðburði á vegum skóla tengdum trúarhátíðum eða lífsskoðunum eða á aldursskiptingu eftir árgöngum eða aðra aldurs- og hópaskiptingu sem tíðkast í menntakerfinu eða íþrótta- og æskulýðsstarfi eða tilteknar skipulagðar vettvangsferðir sem einungis eru í boði fyrir nemendur í tilteknum aldurshópum, svo að dæmi séu nefnd. Það skiptir máli, þegar við ræðum þessar almennu reglur, að muna að við horfum alltaf til þess að það eru málefnalegar ástæður fyrir ýmissi skiptingu í kerfinu okkar og þær munu áfram eiga við.

Frú forseti. Lagt er til að lögin taki þegar gildi verði frumvarpið samþykkt. Þó er lagt til að ákvæði laganna skuli ekki gilda um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs, samanber 1. mgr. 1. gr., fyrr en 1. júlí 2024. Það er gert til að tími gefist til að fara yfir aldurstengd ákvæði í öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og samningum og gera breytingar á þeim ef þörf krefur til samræmis við ákvæði frumvarpsins.

Lagt er til ákvæði til bráðabirgða og það fjallar um skipan starfshóps sem skal fjalla sérstaklega um mismunun vegna tengsla og mögulegar tillögur til breytinga á þessum lögum og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, í tengslum við þess háttar mismunun. Hvað er átt við með því? Jú, þegar einstaklingi er mismunað vegna þess að einhver honum tengdur hefur einhver þau persónueinkenni að bera sem lögin taka til, til að mynda ef hæfasti umsækjandinn í störf fær ekki starf vegna þess að hann á fatlað barn eða maka af erlendum uppruna og það eru engar aðrar málefnalegar forsendur fyrir því viðkomandi aðili fái ekki starfið.

Að lokum eru lagðar til breytingar á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, til samræmis við frumvarp þetta.

Frú forseti. Sú breyting sem hér er lögð til mun leiða til aukinnar réttarverndar fyrir fólk sem telur sér mismunað utan vinnumarkaðar á grundvelli framangreindra mismununarþátta og veitir þeim einstaklingum í fyrsta skipti heimild til að leita réttar síns til úrskurðarnefndar innan stjórnsýslunnar hér á landi. Það er mikilvægt til þess að við getum stuðlað að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi, óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu, og komið í veg fyrir félagslega einangrun fólks. Hugsanlegt er að stofnanir eða fyrirtæki kunni að verða fyrir kostnaði ef bæta þarf aðgengi eða gera breytingar á húsnæði og búnaði vegna fatlaðs einstaklings en samkvæmt frumvarpinu ættu slíkar ráðstafanir ekki að vera of íþyngjandi, m.a. að teknu tilliti til fjárhagslegs bolmagns viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Hvert tilvik þarf að meta fyrir sig en ég held að við hv. þingmenn getum flest verið sammála um að það er mikil þörf á því að bæta aðgengi í samfélaginu, hvort sem er hjá hinu opinbera eða hjá einkaaðilum. Í raun og veru á það að vera sjálfsagt mál að aðgengismál séu í lagi en þarna er þetta áréttað, bara svo að dæmi sé nefnt, um hugsanlegar orsakir kostnaðaraukningar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram það sem leiðir af gildandi löggjöf í jafnréttismálum.

Frú forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins hér og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.