152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svo að ég taki síðari punktinn fyrst þá er það svo, eins og ég sagði áðan, að hér er ekki verið að leggja til breytingar á mismunun á grundvelli tengsla. Hins vegar er ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er til að það verði skoðað sérstaklega. Ég nefndi sem dæmi ef einstaklingi er mismunað á grundvelli þess að eiga fatlað barn. Stjórnmálaskoðanir eru ekki taldar upp sem sérstakur mismununarþáttur í þessu frumvarpi, af því hv. þingmaður nefnir það.

Hv. þingmaður spyr: Veitir þetta frumvarp, verði það að lögum, aukna réttarvernd umfram 65. gr. stjórnarskrárinnar? — sem ég nefndi hér sem grundvöllinn að því sem við erum að gera, þar sem kveðið er á um jafnan rétt okkar allra. En ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að eigi að síður höfum við talið mikilvægt að setja til að mynda lög um jafna stöðu kynjanna. Við höfum með margháttuðum réttarbótum í löggjöf verið að tryggja jafna meðferð, t.d. gagnvart fötluðu fólki. Og þetta frumvarp er liður í því að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi. Þó að við séum með hina almennu reglu algjörlega kristaltæra í okkar stjórnarskrá, og í besta heimi allra heima ætti það að vera nægjanlegt til að tryggja að enginn yrði fyrir mismunun út frá þessum þáttum, hefur reynslan verið sú að það skiptir máli að við gerum grein fyrir þeim mismununarþáttum sem við lítum til í almennri löggjöf og að við tryggjum réttarvernd þeirra sem á er brotið út frá þessum mismununarþáttum.