152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[15:06]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Það er ánægjulegt að sjá að verið sé að auka við mismununarþættina. Það kom mér í raun á óvart að margir af þessum þáttum væru ekki þegar í núgildandi lögum. Við miðaldra, hvítir og gagnkynhneigðir karlmenn verðum kannski ekki fyrir öllum þessum fordómum og þessari mismunun nema kannski þegar kemur að aldri og við verðum ekkert alltaf varir við það. En undanfarna mánuði og undanfarin ár hefur mér þótt mikið ráðist á fólk sökum þessara þátta. Það er nokkuð sem ég hef miklar áhyggjur af, þ.e. sú aukna hatursorðræða sem í raun er hér á landi. Hún fyrirfinnst sér í lagi á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum fjölmiðlanna.

Í tengslum við það vil ég nefna að það er stutt síðan við í þingflokki Pírata vöktum einmitt athygli á slíkri hatursorðræðu sem hv. varaþingmaður okkar, Lenya Rún Taha Karim, hefur orðið fyrir sökum aldurs, sökum lífsskoðunar og sökum þjóðernisuppruna. Það er nokkuð sem hvorki þingmenn né aðrir eiga að þurfa að verða fyrir og ég tel mjög mikilvægt að við sem þingheimur berjumst gegn slíkri hatursorðræðu. Í yfirlýsingu okkar hvöttum við reyndar aðrar stjórnmálahreyfingar til að fordæma alla hatursorðræðu og rasisma í pólitískri orðræðu og ég sakna þess dálítið að sjá undirtektir annarra flokka við þeirri beiðni að fordæma slíkt.

Við þurfum að gera meira en bara að bæta mismununarþáttum inn í lög. Við þurfum einnig að tryggja að þegar það er mismunað, þegar fólk lendir í hatursorðræðu og öðru, þá séu sektir, séu hegningarlög sem taka á því. Að lokum þurfum við ekki bara að setja lög heldur að vinna saman í því að búa til viðhorfsbreytingu þegar kemur að þessum málum í öllu samfélaginu.