152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[15:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta mál er dæmi um mál sem einkenna að talsverðu leyti þessa ríkisstjórn og ekki hvað síst frumvörp frá hæstv. forsætisráðherra, að því leyti að maður veltir fyrir sér hvort það snúist fyrst og fremst um umbúðir og yfirlýst markmið frumvarpsins fremur en hið raunverulega innihald og raunveruleg áhrif þess. Yfirlýst markmið er eitthvað sem ég held að allir hljóti að geta tekið undir en svo hefur raunin ekki alltaf orðið sú sama eða áhrifin hafa ekki alltaf orðið þau sömu og frumvörpin eða lögin eiga að ná.

Ég hef áður, í umræðu um forvera þessa máls, lýst áhyggjum af þeirri tilhneigingu til að telja upp sífellt fleiri persónueinkenni sem njóti verndar. Ástæðan fyrir því að ég hef áhyggjur af því er sú að það gefur tilefni til gagnályktunar, þ.e. að þau persónueinkenni sem ekki eru sérstaklega nefnd njóti ekki sambærilegrar verndar á við önnur. Þetta er að mínu mati, frú forseti, mjög vafasamt fordæmi til að setja. Ég sé að í greinargerð með frumvarpinu er því einfaldlega ranglega haldið fram að ýmsir þeir þættir sem þar eru taldir upp njóti ekki sambærilegrar verndar á við önnur persónueinkenni eins og sakir standa. En afleiðingin, gagnályktunin, er þá sú að þeir þættir sem eru ekki taldir upp í þessu frumvarpi eða fyrri frumvörpum njóti ekki verndar. En þeir gera það. Stjórnarskrá og lög á Íslandi heimila ekki mismunun á grundvelli persónueinkenna og hafa ekki gert. Því þarf maður að velta því fyrir sér hvort þetta frumvarp snúist fyrst og fremst um það sem stundum er kallað dyggðaflöggun eða dyggðamont eða hvort í því felist raunverulegar lögbætur.

Það sem veldur mér þó ekki síður áhyggjum varðandi frumvarpið og tilhneigingu til þess að telja upp sífellt fleiri þætti er að hér er farið út fyrir það sem kalla mætti persónueinkenni, meðfædd eða áunnin persónueinkenni, og sérstaklega fjallað um lífsskoðun. Að mínu mati er það verulega umhugsunarvert, kallar a.m.k. á frekari skoðun en virðist hafa farið fram við undirbúning þessa frumvarps, hvort það sé réttlætanlegt í frjálslyndu lýðræðisríki að setja inn ákvæði sem að einhverju leyti a.m.k. virðist koma í veg fyrir gagnrýni á ólíkar lífsskoðanir fólks. Það verður að vera heimilt að gagnrýna skoðanir fólks, lífsskoðanir eins og það er kallað hér, og jafnvel trúarbrögð. Að mínu mati á að vera heimilt að gagnrýna trúarbrögð, jafnvel að gera grín að þeim þótt mönnum þyki það ekki endilega alltaf viðeigandi. En að leiða það í lög að móðgun á grundvelli skoðana sé ekki ásættanleg og sé ólögleg er mjög stórt og varasamt skref að stíga og ástæða til að taka það til ítarlegrar umræðu.

Um hugtakið lífsskoðun segir í 3. gr. frumvarpsins:

„Lífsskoðun: Skoðun sem byggist á veraldlegum viðhorfum til lífsins, ákveðnum siðferðisgildum og siðferði ásamt skilgreindri siðfræði og þekkingarfræði.“

Og hverjir voru umfram marga aðra eða flesta aðra áhugasamir um svokallaða þekkingarfræði? Það voru marxistar og Marx skrifaði mikið um þekkingarfræði, sambandið milli raunveruleikans og þekkingar eins og hann sá það, eins og það féll að hans lífsskoðun. Við getum ekki hætt á það að leiða í lög bann við gagnrýni á marxisma eða aðra lífsskoðun.

Svo er eitt og annað í frumvarpinu sem vekur athygli og bendir kannski til þess að það sé ekki samið af lögfræðingum eða sérfræðingum á sviði lagasetningar heldur fremur af áhugamönnum um þetta svið. Það er t.d. tekið sérstaklega fram í frumvarpinu að fjölþætt mismunun verði einnig óheimil. Mismunun er óheimil en fjölþætt mismunun verður líka óheimil. Það er sem sagt bannað að mismuna en það er líka bannað að mismuna oft. Það segir sig sjálft, frú forseti, og hefur gert um áratugaskeið eða lengur, frá því að menn fundu upp lög líklega, að ef það er bannað að brjóta lög í einum skilningi er líka bannað að brjóta þau oft. En þarna er það sérstaklega tekið fram, leitt í lög, að það að brjóta lögin oft sé líka ólöglegt. Það er e.t.v. vísbending um hvað lagt er upp með hér, hver tilgangur þessa er.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni hér áðan að það væru ákveðnar undanþágur, praktískar undanþágur, t.d. hvað varðar aldur. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo að 89 ára maður gæti ekki gert kröfu um að skrá sig í 4. bekk í grunnskóla. Það er ágætt að hæstv. ráðherra taki slík praktísk atriði með í reikninginn. Ef umræddur maður hefur misst af grunnskólanámi þætti mér þó eðlilegt að hann hefði tækifæri til að bæta þar úr. En það er þó óljósara með þennan þátt sem ég nefndi hér áðan, aðaláhyggjuefni mitt, þetta með skoðanirnar, lífsskoðun, að það er sérstaklega nefnt í 7. gr. — ég vitna bara beint í greinina, með leyfi forseta:

„Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að ekki sé mismunað á grundvelli þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. og þau séu ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna lífsskoðun eða trú, eru á vissum aldri, af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna eða í ljósi fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar viðkomandi.“

Sams konar ákvæði er að finna víðar í þessu frumvarpi, m.a. varðandi lífsskoðun. Þá veltir maður fyrir sér praktískum áhrifum þess því að þó að hæstv. forsætisráðherra hafi nefnt þetta atriði að nokkru leyti áðan þá sér þess ekki stað í þessu frumvarpi sem einkennist umfram annað, þessar 23 bls. með greinargerð, af endurtekningum, það er sífellt verið að endurtaka sömu hlutina. Við svona lagasetningu þarf að hafa í huga þau álitamál sem geta komið upp. Það eru til að mynda rekin hér á landi ýmis félagasamtök sem byggja á ákveðinni lífsskoðun, KFUM og KFUK og Hjálpræðisherinn til að nefna dæmi. Þessi félög hljóta áfram að þurfa að hafa frelsi til að vinna að framgangi sinnar lífsskoðunar.

Svo er það nú nokkurt áhyggjuefni að mínu mati að sjá að í 8. gr. er að vissu leyti gert ráð fyrir því að ríkið fari að ritstýra auglýsingum. Það er sérstök grein um auglýsingar. Þær mega ekki vega að lífsskoðun í þeim skilningi að það má ekki móðga fólk með ákveðna lífsskoðun eða trú og það sama á við um þjóðernisuppruna. Ég man eftir mörgum auglýsingum þar sem gert hefur verið góðlátlegt grín að öðrum þjóðum, ekki hvað síst nágrönnum okkar, Norðmönnum, Dönum, Þjóðverjum, Ítölum, jafnvel Færeyingum — en allt góðlátlegt og oft og tíðum til að auglýsa einhverjar vörur frá þessum löndum. Hvaða áhrif hefur frumvarpið á slíkt? Einhverjir gætu haldið því fram að hér sé verið að velta upp óþarfaáhyggjum en reynslan af svona lögum, lögum sem eru sett á þessum forsendum, án lögfræðilegrar íhugunar, hefur því miður oft og tíðum verið sú víða um lönd að þau eru túlkuð mjög frjálslega og nýtt til þess að auka á vald ríkisins yfir miðlum, umræðu og jafnvel auglýsingum eins og hér er lagt upp með. Því tel ég mikilvægt að í meðferð þessa máls sé betur skýrt hver raunveruleg áhrif þessa frumvarps verði.

Áfram er talað um lífsskoðun, ítrekað. Þetta er mikil endurtekning eins og ég nefndi áðan, forseti. Það skortir á það að útskýrðar séu málefnalegar ástæður fyrir því að víkja frá því að heimila gagnrýni eða umræðu, jafnvel háð, varðandi ólíkar lífsskoðanir. Slíkt er alger forsenda frjálslyndrar lýðræðislegrar umræðu, að hægt sé að gagnrýna ólíkar skoðanir. Lífsskoðun getur verið mjög röng, að mínu mati og væntanlega flestra, a.m.k. kalla slíkar skoðanir á umræðu, skoðun, mat en ekki það að ríkið grípi inn í og komi í veg fyrir slíka umræðu.

Í greinargerð frumvarpsins sem, eins og ég nefndi áðan, einkennist umfram annað af endurtekningum, er eitt og annað nefnt sem ég hefði viljað fara yfir en ég sé að tíminn er óðum að fljúga frá mér, frú forseti. Ég ætla þó að gefa mér tíma til að lesa upp nokkrar línur úr í 2. kafla greinargerðarinnar en þar segir:

„Einstaklingar eru hins vegar ekki verndaðir á sama hátt gegn mismunun á grundvelli trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar, utan vinnumarkaðar, samkvæmt framangreindri löggjöf um jafnréttismál. Það þýðir að þau sem telja sér mismunað á grundvelli þeirra þátta njóta ekki jafn ríkrar réttarverndar utan vinnumarkaðar og þau sem telja sér mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernisuppruna. Ef ekkert er aðhafst munu þau áfram búa við lakari réttarvernd hvað það varðar en fólk sem telur sér mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar og þjóðernisuppruna.“

Þetta er einfaldlega ekki rétt, frú forseti, í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi er þetta ekki rétt vegna þess að flest þessi persónueinkenni, eða öll persónueinkennin, njóta nú þegar verndar í lögum. Þá vekur þetta spurningar sem ég nefndi í byrjun, áhyggjur af því að menn gagnálykti um að það sem ekki er nefnt sérstaklega njóti ekki sambærilegrar verndar. En þetta er líka málfræðilega rangt. Hver eru þessi þau sem alltaf er verið að tala um? Líklega er þetta bara enn eitt einkennið um að þetta frumvarp er að verulegu leyti ekki byggt á lögfræði heldur frekar á hugmyndafræði og því að sýna ákveðna skoðun.

Skoðunin er góð, frú forseti, að langmestu leyti. Ég held, eins og ég sagði áðan, að allir geti tekið undir það nema hvað varðar skoðanir, lífsskoðun eða hvað menn vilja kalla það. Þar erum við komin inn á hættulega braut. Hvað hina þættina varðar snýst þetta fyrst og fremst um þörfina, að hvaða leyti hún sé til staðar. Ég sé t.d. annars staðar í greinargerð að verið er að tala um hluti eins og að ekki megi meina fólki inngöngu á veitingastað eða koma í veg fyrir að það fái að leigja hús vegna t.d. þjóðernisuppruna. Hér er líklega verið að taka slag sem er meira en 100 ára gamall þegar sett voru upp skilti um að Írar eða aðrir þjóðflokkar í Bandaríkjunum eða á Bretlandi fengju ekki að leigja húsnæði. En á móti má segja: Jú, kannski hefur þetta lagast verulega en þurfum við ekki að vernda þetta í lögum? Jú, við þurfum að vernda þetta í lögum, en við gerum það nú þegar. Og aftur kemur upp þetta áhyggjuefni mitt með gagnályktun, þ.e. að nefna þurfi sérstaklega öll persónueinkenni sem njóti verndar. Það er ekki þannig. Öll persónueinkenni njóta verndar. Allir einstaklingar eiga að njóta jafnræðis og jafnréttis óháð persónueinkennum.

Ég var búinn að skrifa hjá mér punkta við eitt og annað í greinargerðinni sem mér þykir orka tvímælis eða þarfnast skýringa. Ég næ ekki að klára það í þessari ræðu, frú forseti. Það bíður væntanlega 2. umr. Ég vona að þetta frumvarp taki breytingum og við fáum betri skýringar á því hverju á að ná fram með því áður en 2. umr. fer fram.