152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[15:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Það verður æ mikilvægara að berjast gegn mismunun í heimi þar sem fjölbreytileiki mannlífsins verður okkur bæði æ ljósari og nálægð okkar hvert við annað verður sífellt meiri. Ég fagna frumvarpinu og leyfi mér að segja: Þó fyrr hefði verið. Að mínu mati munu lög af þessu tagi verða til þess að auka réttarvernd fólks og leiða til aukins jafnréttis í samfélaginu. Þegar tillögur um bann við mismunun á grundvelli ýmissa þátta koma til umræðu er því stundum velt upp að öll ólík meðferð hljóti að vera mismunun og því séu ákvæði af þessu tagi óljós og þeim sé erfitt að framfylgja. Eftir áratugareynslu ef ekki árhundruða af þeirri umræðu erum við þó sem betur fer komin á þann stað að við gerum okkur skýra grein fyrir muninum á ólíkum meðferðum, ef það er réttlætt á málefnalegan hátt með lögmætt markmið fyrir augum með viðeigandi og nauðsynlegum aðferðum.

Jafnrétti snýst nefnilega ekki eingöngu um að farið sé með sams konar tilvik á sama hátt heldur getur það falið í sér að farið sé með ólíkum hætti með ólík tilvik. Það sem ekki má er að mismuna fólki á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru upp í lögunum án málefnalegrar réttlætingar og til þess að stefna að lögmætu markmiði með nauðsynlegum og viðeigandi aðferðum. Þetta er ekkert flókið og ekkert sem bendir til annars en að við séum fullfær um að greina þarna á milli með góðu móti.

Hér hefur verið bent á annars konar mismunun sem því miður er útbreidd í samfélaginu og fer vaxandi, og ekki hefur verið gert nóg, að mínu mati og margra annarra, til þess að sporna gegn. Það er hatursorðræða og félagsleg útskúfun fólks á ómálefnalegum grundvelli, svo sem á grundvelli kynþáttar, þjóðernis og jafnvel annarra þátta.

Ísland er í kjöraðstöðu til að vera í fararbroddi í aðgerðum gegn hatursorðræðu og fordómum. Við erum fámenn þjóð sem öll er meira og minna á sama samfélagsmiðlinum að tala um sama hlutinn á sama tíma. Tiltölulega auðvelt er að hafa áhrif á umræðuna í samfélaginu og fyrir vikið verður alls kyns vitundarvakning auðsóttari en e.t.v. í margra milljóna manna samfélagi. Ég vil að við nýtum okkur þau tækifæri sem felast í smæð þjóðarinnar því að að ákveðnu leyti veldur smæðin því, í bland við aðra sérstöðu landsins, að við náum athygli umfram fjöldann og út fyrir þá litlu búblu sem við búum í. Þróunin á Íslandi í átt til kvenfrelsis og aukinna réttinda hinsegin fólks hefur sem dæmi gengið nokkuð vel ef horft er til þess sem gengur og gerist í öðrum löndum þar sem þróunin er e.t.v. hægari.

Í ljósi þessa langar mig að leggja til að í kjölfarið á lagasetningu þessari verði stigið skref enn lengra í þá átt að tryggja hér jafnrétti óháð þeim þáttum sem nefndir eru í frumvarpinu og til að útrýma fordómum og hatri í samfélaginu. Ég legg til að ríkisstjórnin sjálf, stjórnvöld sjálf, hlutist til um það að farið verði í herferð gegn hatursorðræðu og fordómum í samfélaginu. Við erum komin á þann stað að við höfum þau tæki, þá þekkingu og færni sem þarf til þess hreinlega að útrýma slíku meini úr okkar góða samfélagi.