152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[15:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að halda aðra ræðu við 1. umr. en eftir athugasemdir hæstv. forsætisráðherra, sem svöruðu ekki nema að mjög takmörkuðu leyti þeim athugasemdum sem ég kom með í fyrri ræðu, þá tel ég ástæðu til að ítreka það strax við 1. umr. þessa máls að á því eru ýmsir gallar, ekki endilega gallar sem lúta að markmiðinu heldur raunverulegum væntum áhrifum þess. Ég fagna því þó að hæstv. ráðherra skuli nefna það sérstaklega að málið fái góðan meðferðartíma í nefnd.

Fyrst og fremst hef ég áhyggjur af því sem ég nefndi áðan um það að búa til þetta fordæmi eða þessa gagnályktun um að jafn réttur allra einstaklinga sé í rauninni ekki tryggður nema tilteknir hópar séu nefndir. Þetta tengist þeim áhyggjum sem ég hef af tilhneigingu stjórnvalda hér á landi og erlendis til að skipta fólki í auknum mæli upp í hópa í stað þess að líta á samfélagið sem eitt samfélag jafn rétthárra einstaklinga. Þessi aukna hópamyndun, sem er mjög í tísku í stjórnmálum, sérstaklega á vinstri kantinum nú til dags, er ekki gæfuleg og fyrri dæmi úr sögunni sýna okkur það.

Einnig hef ég áhyggjur, eins og ég nefndi áðan, af því að verið sé að blanda hér inn í persónueinkennum á borð við fötlun eða kynhneigð, skoðunum, lífssýn. Mér finnst í rauninni fráleitt að setja þetta í sömu lög, að menn njóti verndar vegna til að mynda fötlunar eða kynhneigðar á sama hátt og menn njóta verndar vegna skoðana eða lífssýnar. Þetta er ekki æskileg þróun og er til þess fallin, eins og við sjáum dæmi um víða erlendis, að upp komi álitamál, matsatriði, því að þó að hæstv. forsætisráðherra hafi nánast gert grín að athugasemdum um nýja ritskoðun á auglýsingum hér þá sýnir reynslan erlendis að menn leggja mjög ólíkt mat á það hvað telst vera viðeigandi grín og hvað ekki. Þess vegna myndi ég vilja að hæstv. ráðherra talaði skýrt um það að með þessu verði ekki opnað á, ef svo má segja, misnotkun laganna til að koma í veg fyrir eðlilega gagnrýna umræðu eða þess vegna eðlilegt skopskyn, því að við höfum svo fjölmörg dæmi um slíka þróun frá öðrum löndum.

Annað viðvörunarljós birtist í þessu frumvarpi hvað þetta varðar á blaðsíðu 11 þar sem menn fikra sig inn á braut þess að tala um kerfislæga mismunun. Jafnvel þegar mismunun virðist ekki vera til staðar og er jafnvel ekki til staðar, þá hafa menn útgönguleið eða inngönguleið, kannski réttara sagt í þessu tilviki, í formi kerfislægrar mismununar. Og hvernig er þessi kerfislæga mismunun skilgreind? Hún er ekki skilgreind í frumvarpinu en dæmin sýna að menn ganga oft býsna langt í því að telja að eitthvað feli í sér kerfislæga mismunun. Í enskumælandi löndum hefur þetta jafnvel gengið svo langt að raunvísindi, stærðfræði, eru af áköfustu aktívistum á ákveðnu sviði sögð vera kerfislega mismunandi, feli í sér kerfislægan rasisma, Evrópumiðaða sýn eða vestræna sýn, sem er í fyrsta lagi rangt en að mínu mati líka lítilsvirðandi gagnvart fólki af öðrum uppruna, að telja að jafnvel raunvísindin feli í sér kerfislæga mismunun, kerfislægan rasisma o.s.frv.

Það er því margt í þessu frumvarpi sem þarfnast frekari skýringa og of óljóst hver raunveruleg áhrif þess verða.

En í ljósi þess að málið snýr að markmiði sem ég tel að allir þingmenn á Alþingi Íslendinga séu sammála um, markmiðinu um að tryggja jafnræði allra, þá næst vonandi skynsamleg niðurstaða um leiðir til að ná þessu markmiði. En þær leiðir sem í gegnum tíðina hafa gefist best fela það í sér að menn líti til einstaklingsins og réttinda hans, jafnræðis allra einstaklinga, fremur en að skipta þjóðum upp í fylkingar.