152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[15:49]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér á í einhverjum vandræðum með einmitt þá hluti sem ég nefndi í minni ræðu varðandi í rauninni skilgreininguna á mismunun. Ég ætla að einhverju leyti að taka undir orð hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem kom hérna áðan og benti á að hugsanlega ætti ómálefnaleg mismunun sem stefnir að ólögmætu markmiði eða þegar notaðar eru óviðeigandi aðferðir almennt að vera ólögmæt og kannski spurning hversu löng upptalningin eigi að vera á eftir eða hvort hana þurfi yfir höfuð. Þar með er ég ósammála hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um að verið sé að skipta fólki upp í hópa með þessu, þvert á móti snýst þetta ekki um hópana heldur um að fólki sé mismunað á ómálefnalegum grunni.

Varðandi grín þá langaði mig að koma með trix sem ég held að sé svolítið gott að nota til þess að átta sig á því hvort grín feli í sér einhvers konar mismunun eða hatursorðræðu eða annað, og það er að velta fyrir sér andlagi grínsins. Stundum er þeirri setningu fleygt: Þetta er bara grín. En ég er á þeirri skoðun, og sérfræðingar í húmor eru sammála mér um það, að það er ekki til neitt sem er bara grín. Ég ætla ekki að segja öllu gríni fylgir alltaf einhver alvara en það er nokkuð til í því. Það sem ég ætla að segja er að allt grín hefur þýðingu. Það er ástæða fyrir því að okkur finnst eitthvað fyndið. Það sem segir okkur hvort grín sé viðeigandi eða ekki er inntakið í brandaranum. Hvað erum við að segja? Það er eitthvað sem við erum að reyna að segja. Ef það sem við erum að reyna að segja (Forseti hringir.) felur í sér einhvers konar fordóma eða niðurlægingu á einhverju eða einhverjum þá er það óviðeigandi grín.