152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[16:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með þetta mál svona tímanlega til þingsins. Ég vona að það verði til þess að allsherjar- og menntamálanefnd nái að vinna úr því tímanlega svo að við náum að gera þetta að lögum fyrir vorið, vegna þess að undanþáguheimild sem leyfir barnahjónabönd er alveg ótrúlega mikil tímaskekkja í íslensku lagasafni. Það er gott að fá hæstv. ráðherra með okkur í baráttuna gegn þeirri tímaskekkju.

Mig langar að spyrja varðandi tvennt, sýnist mér, sem snertir þann hluta frumvarpsins sérstaklega. Annars vegar þá undanþáguheimild sem bætt er inn. Það á að fella út stóru undanþáguna en það á að bæta inn heimild til að viðurkenna í undantekningartilvikum hjúskap sem stofnað hefur verið til erlendis þar sem annar aðilinn hið minnsta hefur verið undir 18 ára aldri. Það kom nefnilega fram í umsögnum á síðasta þingi að umsagnaraðilum þætti mjög mikilvægt að þessar undanþáguheimildir væru ofboðslega skýrt afmarkaðar og skilgreindar. Og ég sé ekki að það hafi verið gerðar neinar stórar breytingar á greinargerð eða efni frumvarpsins sem komi til móts við þessar ábendingar. Þannig að mig langar að spyrja ráðherrann hvort þetta sé ekki eitthvað sem nefndin þurfi að skoða sérstaklega vel og jafnvel fá sérfræðinga ráðuneytisins með sér í lið til þess að þrengja það litla nálarauga sem eftir verður, eins mikið og hægt er svo að ekki opnist þarna ný glufa sem mögulegt verður að misnota.