152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[16:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hitt atriðið sem mig langaði að spyrja um snertir kannski hjúskaparlögin í heild sinni. Ég boraði mig dálítið ofan í forsögu hjúskaparlaganna og þessarar undanþáguheimildar fyrir einum tveimur árum þegar ég sjálfur lagði fram frumvarp stuttu áður en þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra gerði slíkt hið sama. Það sló mig dálítið að frumvarp sem varð að lögum nr. 31/1993 — eru þetta ekki 29 ár, næstum 30 ár? — byggði mjög mikið á stöðunni á hinum Norðurlöndunum í þessum málum. Eðlilega berum við okkur saman við nágrannalöndin sem hafa svipað lagaumhverfi. Á þeim tíma voru t.d. undanþáguákvæði sambærileg því sem hæstv. ráðherra leggur til að hér sé fellt úr gildi, það voru slík undanþáguákvæði í flestum hjúskaparlögum Norðurlandanna. Svo leið tíminn og þau voru felld úr gildi á öllum hinum Norðurlöndunum. Eftir stendur þessi litli hortittur á Íslandi sem á nú loksins að fella úr gildi. En þetta vekur spurninguna um hvort kannski sé kominn tími á almenna endurskoðun hjúskaparlaga, hvort það séu kannski blettir hér og þar í lögunum sem eru farnir að úldna pínu eins og þessi, sem kalli á það að lögin í heild sinni séu tekin upp, hvort það sé verkefni sem ráðherra hafi eitthvað skoðað innan ráðuneytisins og hvort það væri eitthvað sem væri kannski vert að setja af stað á kjörtímabilinu.