152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[16:07]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna flestu því sem kemur fram í þessu frumvarpi. Það er ein breyting sem vekur upp ákveðnar áhyggjur í mínum huga og mig langaði að spyrja ráðherra hæstv. ráðherra aðeins út í það. Í frumvarpinu kemur fram að varðandi hjónaband sem stofnað er til erlendis sé möguleiki á að gera undanþágu, hafi einstaklingar báðir verið orðnir 16 ára þegar til hjónabandsins var stofnað, ef það var löglegt í því ríki þar sem hjónavígslan fór fram. Markmiðið með þessum breytingum er göfugt, sem er baráttan gegn barnahjónaböndum og því ofbeldi og útsetningu fyrir ofbeldi sem í þeim felst. En ég óttast að þarna sé að gerast það sem því miður gerist oft þegar lausnir eru lagðar til gegn kúgun og misnotkun, sem er að þær missa marks og bitna í raun fyrst og fremst á þolanda. Þarna hef ég í huga konur sem hafa verið giftar mönnum, ef við búum til dæmi, í Sýrlandi og konan hefur verið barnung að aldri þegar til hjónabandsins var stofnað. Svo brýst út styrjöld, hjónin eiga kannski börn saman en eiginmaðurinn leggur land undir fót og nær alla leið til Íslands, fær hér stöðu flóttamanns, en konan og börnin eru eftir einhvers staðar á landamærum og bíða fjölskyldusameiningar hér á landi.

Spurningin sem mig langar að beina til hæstv. ráðherra er: Telur hann það ekki vera vandamál að þarna er sú staða komin upp að hjónaband þeirra er ekki viðurkennt og þar með uppfyllir konan ekki skilyrði til fjölskyldusameiningar, jafnvel þótt hún sé orðin fullorðin og allir sáttir? Telur hæstv. ráðherra þetta ekki vera vandamál sem þörf er á að leysa? Og ef svo er, hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að slík mál verði leyst?