152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[16:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja aðeins á stuttri ferðasögu og vona að mér fyrirgefist egóisminn með því. Þetta er ferðalag sem ég fór í vorið 2018 til New York þar sem ég sat fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna og mætti á fund sem skipulagður var í samstarfi ríkisstjórna Malaví, Sambíu og Íslands og með UN Women og Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna við Háskóla Íslands. Þessi viðburður fjallaði um barnahjónabönd og baráttuna gegn þeim. Staðreynd málsins er sú að Ísland hefur gert sig gildandi í því að berjast gegn því ofbeldi sem felst í barnahjónaböndum víða um heim og samstarfslöndin Malaví og Sambía eru góð dæmi um það þar sem, að mig minnir, yfir helmingur stúlkna eru gefnar í hjónaband áður en þær ná 18 ára aldri, oft mönnum mjög fjarri þeim í aldri, bara afgömlum körlum sem þær eru gefnar og beittar ofbeldi af árum saman. Þarna hefur íslenska ríkisstjórnin lagt af mörkum pening, sérþekkingu og aðstoð við að uppræta samfélagsmein sem nærist á eitruðum kokteil fáfræði, feðraveldis og fátæktar.

Þar sem ég sat þarna í fyrirlestrarsal í kjallara höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna í mars 2018 og hlustaði á frásagnir fólks af baráttunni rann upp fyrir mér að verkfærin sem notuð voru til að hneppa stúlkur í barnahjónabönd voru þau sömu og við erum með í íslenska lagasafninu. Það kom nefnilega fram hjá fulltrúum bæði frá Malaví og Sambíu að þar væri lagaumhverfið í rauninni alveg gott, þar væru bara ágætis hjúskaparlög. Hins vegar væru í þessum löndum ákveðin undanþáguákvæði sem hægt væri að nýta til þess að beita stúlkur þessu ofbeldi og þau eru nýtt í botn í þessum löndum. Þau eru mest nýtt í fátækustu héruðunum. Þau eru nýtt meira þegar verr gengur, þegar verr árar. Við höfum t.d. séð það og UN Women hafa bent á það og sett af stað sérstakt átak á síðustu árum að í Covid t.d. hefur orðið aukning á barnahjónaböndum vegna þess að fjölskyldur stúlkna sem eru gefnar afgömlum körlum í hjónaband fá oft eitthvað fyrir, hvort sem það er peningur eða vörur eða eitthvað annað. Þannig nærist þetta ofbeldi á eymd aðstandenda stúlknanna sem síðan eru seldar inn í þessi ofbeldissambönd.

Þarna sat ég í kjallara Sameinuðu þjóðanna og þá kviknaði hjá mér spurning: Hversu oft hefur þetta undanþáguákvæði í íslensku hjúskaparlögunum, sem er sambærilegt undanþáguákvæðum í löndum þar sem þessi hjónabönd tíðkast í miklum mæli, verið nýtt frá því að Ísland hækkaði sjálfræðisaldur í 18 ár?

Ég lagði fram fyrirspurn á 148. löggjafarþingi sem ég vil meina að sé svona kannski langamma þessa frumvarps sem við ræðum hér í dag vegna þess að þá kom í ljós að þetta var ekkert dauður lagabókstafur á Íslandi. Við vorum ekkert svo hvítþvegin í þessum málum eins og við hefðum viljað trúa, heldur var þetta undanþáguákvæði notað að meðaltali einu sinni á ári á tímabilinu 1998–2018. Síðan fékk ég nánari upplýsingar um þetta frá ráðuneytinu vegna þess að það er eðlilegt að hugsa, gott og vel, hér eru þetta aðallega stúlkur sem hafa fengið þessa undanþágu, allar 16 og 17 ára, og einn drengur, en hvað með makann? Eru þetta kannski nánast jafnaldrar sem fella hugi saman og vilja giftast og þurfa undanþágu til þess? Þá kom í ljós, þegar aldur hjónaefnis kom frá ráðuneytinu, að svo var bara alls ekki alltaf. Árin 2004 og 2005 var t.d. veitt undanþága fyrir eina 17 ára stúlku hvort ár til að giftast 31 árs karlmanni.

Við höfum ekki söguna á bak við þessi sambönd. Við vitum ekki hvað er þarna að baki en við vitum ekki heldur hvernig ráðuneytið uppfyllti þá skyldu sem á því hvílir þegar svona undanþága er veitt. Hvernig rannsakaði ráðuneytið að þarna væru stúlkurnar að ganga í hjónaband, fullkomlega óþvingað og af heilum hug? Hvernig uppfyllti ráðuneytið þá gríðarlegu ábyrgð sem felst í því að veita undanþágu í jafn mikilvægum málum og þessi eru?

Og að því ætlum við að komast vegna þess að fyrr á þessu þingi var samþykkt beiðni frá mér um skýrslu frá innanríkisráðherra um undanþágurnar og verklag ráðuneytisins í hverju tilviki, hvaða viðmið voru lögð til grundvallar, hvaða gagna var aflað og hvernig ráðuneytið rækti rannsóknarskyldu sína til að ganga úr skugga um að ekki væri um þvingun að ræða.

Það skiptir nefnilega máli núna þegar við erum að fylla í þessa glufu að við gerum upp söguna, að við gerum upp sögu þessa undanþáguákvæðis og sjáum hvort eitthvað sé af því að læra, hvort stjórnvöld hafi mögulega brugðist.

Frú forseti. Ég lagði fram frumvarp um bann við barnahjónaböndum á 151. þingi og í kjölfar þess frumvarps fékk ég skilaboð frá fólki sem þekkti til hjóna sem höfðu fengið þessa undanþágu, sem höfðu jafnvel sjálf fengið slíka undanþágu. Þó að það segi ekkert alla söguna, við erum að tala um þrjú, fjögur sambönd sem ég fékk smá innsýn í í þessum samtölum, þá er ég ekki viss um að þessi saga eigi eftir að koma allt of vel út fyrir ráðuneytið. Þarna spilar oft inn í þrýstingur frá ættingjum, sum þessara dæma eru sambönd þar sem fólk var tekið saman og farið að stunda kynlíf og jafnvel komið til barn og þá vildu foreldrarnir ekki að það barn yrði fætt utan hjónabands vegna þess að það stangaðist á við einhverjar lífsskoðanir innan fjölskyldunnar. Niðurstaðan var sú að stúlkan þurfti að ganga í hjónaband með manni sem hún átti kannski ekkert erindi í samband við til lengri tíma. Ég vona að ráðuneytið taki þessari skýrslubeiðni sem var samþykkt mjög alvarlega og horfist bara heiðarlega í augu við það hvernig þetta var framkvæmt á þessum 20 árum sem undanþágur voru veittar.

Í andsvörum áðan var aðeins rætt um þá heimild sem lagt er til að verði sett inn í lög samkvæmt 5. gr. frumvarpsins um að þegar sérstaklega standi á og ótvíræðir hagsmunir standi til þess að viðurkenna hjúskap fólks sem flytur hingað erlendis frá sé heimilt að viðurkenna þann hjúskap. Það kom ágætlega fram í andsvörum áðan hversu viðkvæmt og flókið þetta getur verið. Allsherjar- og menntamálanefnd á því verk fyrir höndum í því að ná góðri lendingu þar, annars vegar á milli þess að það sé skýrt og auðvelt að fara eftir því hvaða hagsmuna eigi að líta til, eins og bent var á í umsögnum t.d. Barnaheilla og Kvenréttindafélags Íslands þegar þetta frumvarp var lagt fram síðast, og hins vegar að túlkunin verði ekki svo þröng að hún komi niður á þeim aðila sem yngri er sem í þessu samhengi er einhvers slags þolandi og þá má ekki láta kerfið brjóta áfram á viðkomandi með of stífri lagatúlkun. Þarna er ákveðin jafnvægislist sem nefndin þarf að finna út úr.

Annars langar mig rétt að lokum að nefna annað atriði sem kemur fram í þessu frumvarpi sem ég hef nú dálítið gaman af. Það er 4. gr. frumvarpsins og snýst ekkert um barnahjónabönd heldur um það hvaða aðilar það eru sem annast könnun á hjónavígsluskilyrðum. Í dag eru það sýslumenn eða vígslumenn samkvæmt hjúskaparlögum, sem eru þá til þess bærir fulltrúar trúar- og lífsskoðunarfélaga, en í frumvarpinu er lagt til að einungis sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annist könnun á hjónavígsluskilyrðum. Mér finnst þetta jákvætt skref og eitthvað sem ég hefði jafnvel viljað sjá víkkað dálítið út vegna þess að eins og hæstv. ráðherra nefndi er þetta spurning um gæði. Þetta er spurning um að lögfróður sérfræðingur og hlutlaus kanni það hvort hjónaefni uppfylli nauðsynleg skilyrði.

Ég held að sömu sjónarmið eigi við varðandi hjónavígsluna sjálfa, eins og við þekkjum í ýmsum nágrannalöndum þar sem hjónavígsla eða það að stofna til hjúskapar á sér einkanlega stað á kontór hjá sýslumanni þar sem farið er upp á punkt og prik eftir lagabókstaf en síðan getur fólk fengið blessun síns trúfélags þar að auki. Það gerir það bara daginn eftir eða hvað sem er og það er eitthvað sem kemur ríkinu ekkert við.

Ég held að þetta skipti máli bæði upp á gæði, eins og hæstv. ráðherra nefndi, varðandi hjónavígsluskilyrðin og ég held að sömu gæði skipti máli þegar kemur að hjónavígslunni í heild sinni upp á það að skilja á milli þeirra tengsla sem eru oft á milli trúar- og lífsskoðunarfélaga og löggjafans sem ég held að hafi ekki alltaf verið til góðs eins og við þekkjum úr baráttunni fyrir einum hjúskaparlögum, baráttunni fyrir því að viðurkenndur skyldi réttur einstaklinga af sama kyni til að ganga í hjúskap. Það er bara staðreynd að vegna þess að trúfélög og sérstaklega þjóðkirkjan höfðu svo mikið um (Forseti hringir.) hjúskaparlögin að segja þá tafðist það mál, þær lagaúrbætur, um mörg ár vegna þess að í íslenskum lögum er einstaklingum (Forseti hringir.) hjá trúfélögum gefið eitthvert vald yfir hjónabandinu sem er borgaraleg stofnun, sem er stofnun sem á að heyra undir sýslumenn. (Forseti hringir.) Ég legg til að allsherjar- og menntamálanefnd skoði að útvíkka þetta dálítið frá því sem er í frumvarpinu.