152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[16:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannavarnir. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi þar sem það gekk til allsherjar- og menntamálanefndar eftir 1. umr. Frumvarpið er nú lagt fram í lítið breyttri mynd en smávægilegar breytingar hafa verið gerðar, m.a. vegna framkominna umsagna við frumvarpið.

Gildandi lög um almannavarnir tóku gildi í júní 2008 og hafa tekið litlum efnislegum breytingum síðan. Talsvert hefur reynt á lögin og það fyrirkomulag sem kveðið er á um í þeim þegar almannavarnaástand skapast og almannavarnastigi er lýst yfir af ríkislögreglustjóra. Síðustu ár hafa verið viðburðarík: fárviðri, snjóflóð, skriðuföll, jarðskjálftar, Covid-heimsfaraldur og nú síðast eldgos hafa reynt mikið á skipulag almannavarna og eru breytingar lagðar til með hliðsjón af þeirri miklu reynslu sem fengist hefur á síðustu misserum.

Ein af niðurstöðum átakshóps, sem stofnaður var í kjölfar óveðursins í desember 2019, var einmitt að efla almannavarnir með heildarendurskoðun laganna. Tilgangur frumvarpsins er m.a. að skilgreina betur lykilhugtök, skerpa á verkaskiptingu og leggja til þarfar breytingar á rýni aðgerða viðbragðsaðila. Lagt er til að mismunandi almannavarnastig og hugtakið hættustund verði skilgreind í lögunum en þessi hugtök ráða því hvenær valdheimildir laganna virkjast.

Almannavarnastigin eru þrjú, óvissustig, hættustig og neyðarstig, í samræmi við alvarleika þess neyðarástands sem uppi er hverju sinni, umfang viðbúnaðar og þörf á forgangshraða viðbragðsaðila eins og landsmenn hafa fengið að kynnast að undanförnu.

Með frumvarpinu er ábyrgð lögreglustjóra á gerð viðbragðsáætlana og könnun áfallaþols einnig gerð skýrari. Þá er einnig tilefni til að færa lögreglustjórum í héraði, í ljósi stöðu þeirra sem aðgerðastjóra, beina aðkomu að gerð viðbragðsáætlana og hættumata. Lagðar eru til orðalagsbreytingar með frumvarpinu, til að mynda verði heiti almannavarna- og öryggismálaráðs breytt í almannavarnaráð til að heiti ráðsins sé meira lýsandi fyrir verkefni þess í samanburði við þjóðaröryggisráð sem tók til starfa með lögum nr. 98/2016. Smávægilegar breytingar eru gerðar á skipan ráðsins, m.a. með því að ráðherra samgöngumála verði aðili að því og heiti fulltrúa sem eiga sæti í ráðinu eru leiðrétt vegna breytinga sem hafa orðið á stofnunum. Jafnframt er kveðið á um að ríkislögreglustjóri geti að fengnu samþykki ráðherra farið fram á aðstoð erlends hjálparliðs í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að. Þá verði ráðherra fengin heimild til að setja reglur um móttöku erlends hjálparliðs. Brýnt er að móttaka slíks hjálparliðs geti gengið hratt og örugglega, svo ekki verði ónauðsynlegar tafir á hjálpar- og björgunarstörfum.

Þá er lagt til að ákvæði um borgaralega skyldu opinberra starfsmanna verði lögfest varanlega en það hefur hingað til verið lögfest sem bráðabirgðaákvæði. Notkun þess ákvæðis í Covid-heimsfaraldrinum hefur sýnt að þessi heimild er nauðsynleg til að geta brugðist við þegar viðlíka ástand skapast og nú hefur verið. Ákvæðið stuðlar m.a. að því að unnt sé með fumlausum hætti að tryggja almannaþjónustu á hættustundu. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að núgildandi ákvæði um almenna borgaralega skyldu verði eingöngu beitt þegar brýna nauðsyn ber til og önnur vægari úrræði, svo sem áðurnefnt ákvæði um borgaralega skyldu opinberra starfsmanna, duga ekki til. Í ákvæðinu verði tekið fram að maður sé undanþeginn slíkri skyldu þegar heilsufari hans eða annars einstaklings, sem hann ber ábyrgð á, sé stefnt í sérstaka hættu með því að fela honum að gegna slíkum störfum.

Breytingar á fyrirkomulagi varðandi rýni aðgerða fela í sér að rannsóknarnefnd almannavarna verður lögð niður. Í hennar stað komi þrepaskipt rýni sem taki mið af þörfum hverju sinni. Fyrsta þrepið felst í innri rýni á aðgerðum viðbragðsaðila. Þannig skal almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ávallt halda rýnifund með fulltrúum viðbragðsaðila að loknum aðgerðum þar sem lagt verði mat á það hvernig til tókst. Reynslan hefur sýnt okkur að almannavarnastig getur varað í langan tíma og breyting orðið á því á hvaða almannavarnastigi ástand er metið. Því er í frumvarpinu jafnframt lagt til að ríkislögreglustjóri hafi heimild til að halda slíkan fund meðan almannavarnastig varir ef sérstök ástæða er talin til. Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á og hefur eftirlit með því að viðbragðsaðilar geri viðunandi úrbætur í samræmi við niðurstöður rýnifundur. Utanaðkomandi rýni fari fram ef stjórn samhæfingar- og stjórnstöðvar telur nauðsynlegt og verða þá kallaðir til aðilar til skýrslugerðar sem hafa sérþekkingu sem til þarf. Samhæfingar- og stjórnstöð er jafnframt heimilt að láta vinna slíka skýrslu þótt almannavarnastigi hafi ekki verið aflétt ef sérstök ástæða er talin til.

Reynslan sýnir okkur að oft eru málin mjög mismunandi. Það þarf að vera fjölbreytt viðbragð til staðar sem og þekking til að takast á við mjög ólík mál sem almannavarnakerfið hefur tekist á við eins og síðustu ár hafa bersýnilega sýnt. Í alvarlegustu tilvikum geti ráðherrar einnig sett af stað slíka ytri rýni með því að kalla eftir skýrslugerð sérfræðinga til að varpa ljósi á mögulega vankanta og fá tillögur að úrbótum. Ég tel að þetta kerfi taki betur mið af raunverulegri þörf hverju sinni en það fyrirkomulag sem núgildandi lög gera ráð fyrir. Aðrar breytingar í frumvarpinu eru m.a. nauðsynlegar til að tryggja að enginn vafi leiki á um hlutverk viðbragðsaðila þegar almannavarnastigi hefur verið lýst yfir og samfélagið geti starfað án truflana við slíkar aðstæður.

Frumvarp þetta er aðeins fyrsta skrefið í endurskoðun laga um almannavarnir. Fyrirhugað er að á árunum 2022–2025 verði áfram unnið að heildarendurskoðun laganna í víðtæku samráði og í samræmi við stefnu um almannavarnir og öryggismál sem samþykkt var á fundi almannavarna- og öryggismálaráðs í mars 2021.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins en með því er skipulag almannavarna gert skýrara sem er lykilatriði þegar bregðast þarf við náttúruvá og öðrum ógnum. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.