152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[16:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú þannig með þessi Covid-mál sem eru lögð fram aftur og aftur að það fer aðeins að grautast í hausnum á manni hvað hefur verið sagt og gert áður og hvernig þau litu upphaflega út. En mig minnir að í fyrstu útfærslu frumvarps um borgaralega skyldu starfsmanna á hættutímum hafi stéttarfélög gripið nokkuð fast í taumana og lýst áhyggjum af ákveðnum þáttum þar. Allsherjar- og menntamálanefnd á þeim tíma, sem er þá væntanlega fyrir tveimur árum, kom til móts við það bæði með orðalagsbreytingu og með því að tímabinda lagaákvæðið ansi stíft. Í ljósi þess að um væri að ræða tímabundna heimild lögðust stéttarfélögin ekki gegn ákvæðinu á þeim tíma. Hið sama var uppi á teningnum hér fyrir ári þegar ákvæðið var framlengt til bráðabirgða. Þá lagði BSRB t.d. ríka áherslu á að um neyðarúrræði væri að ræða og var ekki mótfallið því að framlengja bráðabirgðaákvæði í ljósi þess að neyðarástand ríkti.

Mig langar þess vegna að spyrja, í ljósi þess að hér er lagt til að festa bráðabirgðaákvæðið varanlega í sessi í lögum, hvaða samráð hafi átt sér stað við stéttarfélögin varðandi þetta ákvæði. Þetta er viðkvæmt mál, það kom bersýnilega í ljós fyrir tveimur árum. Og þó að ekki hafi verið jafn hávær mótmæli fyrir ári þegar þetta var framlengt þá horfir það væntanlega öðruvísi við þegar um varanlega lögfestingu er að ræða.