152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[16:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Auðvitað er verið að taka á atriði sem getur reynst mikilvægt en á sama tíma viðkvæmt. Í frumvarpinu er verið að reyna að rata þann veg sem er réttlætanlegur í mjög alvarlegum tilfellum þar sem við þurfum að geta gripið til þessara ráðstafana. Eins og fram kom í máli mínu áðan þá er frumvarpið nú lagt fram í lítið breyttri mynd en það hafa samt verið gerðar breytingar vegna framkominna umsagna um frumvarpið sem hafði áður fengið málsmeðferð. Ég tel og vona að tillit hafi verið tekið til þeirra sjónarmiða og þeirrar gagnrýni sem kom fram þannig að við séum hér með eitthvað sem geti kallast viðunandi. Það kemur þá í ljós núna við þinglega meðferð málsins. Það er kallað mjög eftir þessu, ekki síst af hálfu sveitarfélaga. Þetta getur reynt á innviði þeirra og að geta skipað fólki til annarra verka en það var ráðið til á upphaflegum tímum. Auðvitað er slíkt alltaf neyðarúrræði og verður alltaf neyðarúrræði. Það getur reynst nauðsynlegt en er vandratað og hlýtur alltaf að verða tímabundið.