152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[17:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt, eins og ég kom inn á hér áðan, að almannavarnanefndir ná oft yfir mörg sveitarfélög sem eru jafnvel ólík. Eins og við þekkjum mjög víða þá er slíkt undir. Eins og hv. þingmaður bendir á þá getur verið meiri hætta á margs konar áföllum í einu sveitarfélagi umfram önnur og í sjálfu sér þarf hvert og eitt sveitarfélag þess vegna að gera sína viðbragðsáætlun en saman þurfa þau svo að standa að einhverri heildarsýn. Það var kannski þess vegna sem ég var að árétta það hér, og ég tek alveg undir það með hv. þingmanni, að það þarf að efla getu sveitarfélaganna til að áhættugreina og til að búa til viðbragðsáætlanir. Og af því að ég var að bera saman lögregluna, sem er kannski yfir öllu á einum tíma en ekki endilega inni í þessu til lengri tíma, þá kemur þekkingin ekki endilega þaðan. Þekkingin þarf að koma einhvers staðar annars staðar frá.

Það er alveg spurning: Eigum við að gera meira úr þessu í sveitarstjórnarlögunum, og þá myndi þetta væntanlega falla undir jöfnunarsjóð eða byggðatengingar eða eitthvað slíkt, eða á að búa til átaksverkefni þar sem sveitarfélögum er ýtt út í þessa vinnu, að öll verði þau að vera búin að gera sér einhverjar áætlanir miðað við daginn í dag. Þau eru auðvitað flest með einhvers konar áætlanir, sannarlega, það má svo sem ekki gleyma því, en við sjáum bara að víða er ekki vanþörf á. Eins og hv. þingmaður nefndi er ekki endilega gert ráð fyrir öllu í breyttu árferði þó að sveitarfélögin hafi uppfært sig að einhverju leyti en það er alltaf þessi samhæfing sem við þurfum að gæta að að mínu mati.