152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[17:09]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég held við séum sammála. Það er margt sem þarf að gera þarna. Við þurfum bara að hugsa vel um það hvernig við getum tryggt að það verði gert. Sannleikurinn er sá að það er mjög lítið til af viðbragðsáætlunum, mjög lítið. Það er til fullt af almennum áætlunum en þær eru ekki til um alls konar hættu, eldgos og ýmislegt annað sem getur komið fyrir. En mig langaði líka að snerta á punktinum um rannsóknarnefnd versus rýni, sem fjallað er um í frumvarpinu. Það var svo sannarlega þannig að rannsóknarnefnd almannavarna, sem var skilgreind í gömlu lögunum, fékk aldrei fjármagn til að vinna sitt verk fyrr en seint og um síðir og síðan var það stoppað. Hafandi tekið þátt í fjölda aðgerða og leitt rýni og séð um rýni get ég sagt að viðbragðsaðilar eru sennilega hörðustu rýningaraðilarnir sem þú getur fundið. Við erum mjög gagnrýnin á sjálf okkur og það er svo sannarlega af hinu góða. Ég tel að það sé af hinu góða að það sé gert að skyldu að gera alltaf rýni. En hvort utanaðkomandi rýni þurfi við ákveðnar aðgerðir — ég tel að hana þurfi ekki við allar aðgerðir en það þarf svo sannarlega að vera einhvers konar flötur á því þegar um stórar og kannski mjög áhrifamiklar aðgerðir er að ræða, hvernig hægt er að leysa það. Ég spáði t.d. aðeins í það hvort meiri tengsl ættu að vera milli almannavarnaráðs og þings til að geta komið hlutum þar áfram. En þetta er svo sannarlega hlutur sem þarf að laga.