152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

almannavarnir.

181. mál
[17:21]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir góða söguskýringu. Við sem höfum setið einmitt þarna á þessu svæði í samhæfingarstöðinni undanfarna — ja, það eru víst að verða áratugir, við vitum að það er gott samstarf þar á milli aðila. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að bæði stjórn samhæfingarstöðvarinnar og ráðherrar geti látið vinna skýrslu. En til þess að tryggja að hægt sé að óska eftir slíkri skýrslu frá löggjafarvaldinu líka þá er spurning hvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti að hafa möguleika á því að óska eftir henni, jafnvel þó að ráðherrann sé ekki sammála. Það gæti verið góð leið til að tryggja það að allir séu sáttir. En ég held líka, eins og bent er á í greininni, að það þurfi að passa að það séu ákveðin hæfnisskilyrði þeirra sem eru settir í slíka nefnd og þau séu vel skilgreind eins og talað er um, en líka að þeir séu ekki of tengdir aðilum sem voru í aðgerðinni.

Annars tel ég að það séu margar góðar ábendingar þarna og ég er viss um að nefndin skoðar það. Ég ítreka samt enn og aftur að það þarf að fara í vinnu við heildarendurskoðun á þessu og þar eru tækifæri til að laga ýmis atriði líka sem við vitum að þarf að taka á, eins og t.d. skiptingin milli almannavarnanefnda og lögregluembættanna.