152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

loftferðir.

186. mál
[17:48]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta er sjálfsagt með umfangsmeiri lagabálkum sem lagðir eru til hér enda um að ræða heildarendurskoðun á loftferðalögum og uppfærslu á þeim til margra ára, gríðarlega umfangsmikil lög. Þegar til kastanna kemur við svona einstök mál munum við hreinlega þurfa að fá að mæta fyrir nefndina og útskýra einstaka hluti í betra tómi.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um umsögn flugliða þá hefur það verið skilningur minn að með þessum lögum sé samt sem áður verið að bæta stöðu áhafna í flugi. Þar á meðal eru verkefni er varða flugatvik sem hafa valdið veikindum hjá tilteknum hópi fólks sem hafa reyndar verið til skoðunar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. En þessi uppfærsla á lögunum, eins og ég hef fengið kynningu á, myndi skýra þá stöðu betur. Það hafa einnig átt sér stað samtöl við hóp starfsmanna, flugáhafna, um slíka hluti. Ég myndi treysta mér til að fara nánar ofan í þetta með ráðuneytinu á fundi nefndarinnar til að við áttum okkur nákvæmlega á því hvar munurinn er og af hverju ekki er komið að fullu til móts við þá umsögn sem hv. þingmaður vísar til.