152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

loftferðir.

186. mál
[17:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða hér örstutt um það atriði sem við hæstv. ráðherra lukum andsvörum á sem snýst um skipulagsreglur flugvalla og samband sveitarfélaga sem fara með skipulagsvaldið á þeim svæðum og þess ráðherra sem fer með flugmál. Ég er nefnilega mjög sammála ráðherranum um að þetta sé afskaplega áhugavert mál. Við lendum æ oftar í því að sveitarfélög koma til okkar þegar frumvörp eru lögð fram og benda á að verið sé að ganga nærri skipulagsvaldi þeirra. Á síðasta vetri var það í þessu máli, frumvarpi um loftferðir og vegna frumvarps frá umhverfis- og auðlindaráðherra sem fjallaði um raflínuskipulag. Það eru hvort tveggja frumvörp sem er alveg hægt að skoða sem almenna umræðu um valdmörk stjórnsýslustiganna og skipulagsvald almennt en er auðvitað freistandi að skoða í nákvæmlega því samhengi sem þau eru lögð fram í.

Frumvarp um breytingu á lögum sem gilda m.a. um raflínur var væntanlega sett til höfuðs framkvæmdum norðan lands sem lengi hafa verið deilur um, hugsað sem leið til að komast hjá þeim deilum með því að fjarlægja ákvarðanatökuna frá sveitarfélögunum þar sem ágreiningurinn hefur verið hvað mestur. Þessi hugmynd í frumvarpi til laga um loftferðir hlýtur að skoðast í samhengi við þær viðvarandi deilur sem virðast vera milli núverandi ríkisstjórnar, eða hluta hennar a.m.k., og borgarstjórnar Reykjavíkur um Reykjavíkurflugvöll, enda var það ekki bara Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerði athugasemd við 144.–147. gr. frumvarpsins fyrir ári. Þótt ráðherranum hafi tekist að telja upp fjögur eða fimm dæmi þar sem það eru taldir vera ríkari hagsmunir til þess að ríkið eða einhver sameiginlegur hópur sveitarfélaga fari með skipulagsvald á afmörkuðu sviði, þá eru þau dæmi ekki mörg. Í umsögn Reykjavíkurborgar segir að það sé nánast fordæmalaust að ríkið hafi takmarkað eða haft áhrif til að breyta skipulagsvaldi sveitarfélaga. Reykjavíkurborg skoðar sérstaklega dæmið um Keflavíkurflugvöll sem er kannski eðlilegt að líta til í þessu samhengi þar sem sérstakri skipulagsnefnd er falið að hafa umsjón með skipulagi innan Keflavíkurflugvallarsvæðisins. Munurinn á því fyrirkomulagi og fyrirkomulaginu sem hæstv. ráðherra leggur til er hins vegar sá að skipulagsnefndin er í samræmi við lög skipuð sex einstaklingum, þar sem þrír þeirra eru skipaðir á grundvelli tilnefninga frá sveitarfélögunum sem áður fóru með skipulagsvaldið. Þannig að þó að ríkið stígi þarna inn og taki yfir hluta skipulags innan girðingar Keflavíkurflugvallar er sveitarfélögunum haldið þar innan líka. Svo er ekki í þessu frumvarpi til laga um loftferðir.

Það sem skiptir líka máli um það hvernig fyrirkomulagið á Keflavíkurflugvelli varð til er að þær tillögur byggðu á skýrslu sérfræðinganefndar sem benti á að flugvallarsvæðið í Keflavík ætti sér ekki hliðstæðu á Íslandi, m.a. vegna þess að á flugvellinum hvíla t.d. þjóðréttarlegar skuldbindingar. Þetta er varnar- og öryggissvæði. Það sem greinir Keflavíkurflugvöll reyndar frá Reykjavíkurflugvelli er að landið undir Keflavíkurvelli er alfarið í eigu ríkisins á meðan Reykjavíkurflugvöllur — nú man ég ekki hlutfallið, á ekki Reykjavíkurborg rúman helming og ríkið tæpan helming af vellinum? Sú staðreynd ein og sér hefði maður ætlað að kallaði á náið samstarf þeirra landeigenda sem koma að Reykjavíkurflugvelli eins og birtist í þessari skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. En reyndin hefur hins vegar verið sú að svo er alls ekki.

Það sem Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til er ósköp einfalt fyrirkomulag sem mig undrar að ekki hafi verið litið meira til í meðferð ráðuneytisins milli þinga. Sambandið leggur það til til að draga úr hættu á ágreiningi milli annars vegar rekstraraðila flugvalla og hins vegar skipulagsyfirvalda í viðkomandi sveitarfélaga, draga úr þeim ágreiningi án þess að skerða skipulagshlutverk sveitarfélaga. Ef við lítum sérstaklega og sér í lagi á Keflavíkurflugvöll þar sem ríkið hefur tekið til sín skipulagsvaldið þá er staðan bara allt önnur þar en á öllum öðrum flugvöllum á Íslandi. Það er afstaða sambandsins að það frumvarp sem við fjöllum um hér sé ekki tilefni til fráviks af þeirri stærðargráðu sem hæstv. ráðherra leggur til. Sama er rakið í umsögn Reykjavíkurborgar við frumvarpið.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvers vegna ekki er farin mildari leið frekar en að gefa ráðherra flugmála ansi opinn tékka til þess að geta einfaldlega sett skipulagsreglur, gefið út skipulagsreglur sem gangi framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga, þá væntanlega framar skipulagsáætlunum Reykjavíkurborgar fyrst og fremst.

Frú forseti. Ég held að þetta sé ákvæðið sem við þurfum að skoða og breyta í meðferð umhverfis- og samgöngunefndar svo ekki hljótist verra af. Nógu illa hefur gengið að halda friðinn á milli núverandi ríkisstjórnar og borgarstjórnar Reykjavíkur þegar kemur að framtíð Reykjavíkurflugvallar og það að hnýta inn ýmsum lagaheimildum sem flækja þau samskipti enn frekar er ekki því til framdráttar að hér verði sú mikilvæga þróun að flugvöllur flytji úr miðbæ Reykjavíkur og við getum þroskað þar þétta og góða byggð fyrir íbúa Reykjavíkur og landsins alls.