152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

fullgilding fríverslunarsamnings Íslands, Noregs og Liechtenstein og Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

206. mál
[18:07]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild handa ríkisstjórninni til að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli Íslands, Noregs, Liechtenstein, Stóra-Bretlands og Norður-Írlands. Frá því að Bretland tilkynnti um útgöngu úr Evrópusambandinu og þar með EES-samstarfinu hefur umfangsmikil vinna átt sér stað við að tryggja framtíðarhagsmuni Íslands í viðskiptum og öðrum samskiptum við Bretland. Viðræður Íslands og Bretlands hafa þegar skilað miklum árangri, m.a. með samningum og sameiginlegum yfirlýsingum sem miða að því að tryggja áframhaldandi náið samstarf ríkjanna.

Meðal þeirra samninga sem gerðir hafa verið er sá fríverslunarsamningur sem hér er mælt fyrir. Viðræður um gerð hans hófust í september 2020. Þær fóru fram með hinum EFTA-ríkjunum innan EES, þ.e. Noregi og Liechtenstein. Lokið var við gerð fríverslunarsamningsins í sumarbyrjun 2021 og hann undirritaður 8. júlí síðastliðinn.

Fríverslunarsamningur við Bretland er að meginstofni til byggður upp með sama hætti og þeir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert í samstarfi við hin EFTA-ríkin. Hann er þó yfirgripsmeiri og ítarlegri en aðrir fríverslunarsamningar sem Ísland á aðild að. Það endurspeglar mikilvægi Bretlands fyrir okkur Íslendinga. Kjarnahagsmunir Íslands í vöru- og þjónustuviðskiptum við Bretland eru tryggðir með þessum samningi. Bretland er meðal allra mikilvægustu markaða fyrir íslenskar útflutningsvörur og stærsta einstaka innflutningsland íslenskra sjávarafurða. Samningurinn tekur jafnframt til fjölmargra annarra þátta sem snerta viðskipti á milli ríkjanna og má þar nefna opinber innkaup, hugverkaréttindi, umhverfisvernd, vinnurétt, jafnréttismál og samkeppnismál.

Í utanríkisráðuneytinu og í öðrum ráðuneytum hefur verið lögð mikil áhersla á að styrkja samskipti við Bretland í kjölfar útgöngu úr ESB. Auk fríverslunarsamningsins hefur þannig verið lokið við gerð samninga um dvalar- og atvinnuleyfi ungs fólks, loftferðasamnings, samkomulags um samstarf á sviði menntunar, rannsókna, nýsköpunar og geimvísinda o.fl. Þá standa yfir viðræður við bresk stjórnvöld um nýjan samning á sviði heilbrigðisþjónustu og almannatrygginga.

Utanríkisráðuneytið stóð fyrir umfangsmiklu samráði við helstu hagsmunaaðila, bæði á samningstímanum og í undirbúningi samningaviðræðna, og þá hafði ríkisstjórnin náið samráð við utanríkismálanefnd Alþingis. Það er von mín að Alþingi geti fjallað um þetta mál og afgreitt örugglega svo að samningurinn geti tekið gildi sem fyrst.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að aflokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.