152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

172. mál
[19:37]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það gleður mig að heyra að hún er sammála markmiðinu vegna þess að ég trúi því að þá muni það nást í gegn. Stuðningur hv. þingmanns mun skipta miklu máli. Hv. þingmaður minnist á andmælarétt vegna stjórnsýslunnar. Það liggur fyrir að í málinu, eins og það er lagt fyrir hér, er leitast við að skýra í athugasemdum við greinina — af því að nú er hv. þingmaður að tala um fyrri hlutann, ekki þar sem þetta er í sátt og samlyndi. Getið er um ákveðnar sönnunarkröfur í frumvarpinu og þær eru eftirfarandi, svo að ég fari aðeins yfir það í greininni, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 36. gr. getur annað hjóna krafist lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng hafi makinn beitt það, eða barn sem býr hjá þeim, ofbeldi.“

Og í framhaldinu segir:

„Veita skal leyfi til skilnaðar á grundvelli ákvæðisins ef:

a. maki gengst við broti sínu eða hefur hlotið dóm fyrir það,

b. upplýsingar sem staðfesta útkall vegna heimilisofbeldis maka liggja fyrir í skýrslu lögreglu, eða

c. önnur gögn á borð við áverkavottorð eða mat sálfræðings benda til þess að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu makans.“

Ég myndi telja þetta til þess fallið að uppfylla kröfur eða væntingar stjórnsýslunnar um löggjörninginn. Þetta snýst raunverulega um það að hallað hefur á þessa hluti í núgildandi lögum.