störf þingsins.
Herra forseti. Það var nú ekki skaplegur uppvakningur sem mætti okkur hér stuttu eftir áramót þegar allt í einu birtust aftur plön um kísilver í Helguvík. Skipulagsstofnun skilaði niðurstöðu í því máli og hún var almennt neikvæð, en framkvæmdaraðili, eða eigandi í gegnum Arion banka, er að leita eftir kaupendum að þessari verksmiðju, sem er ekki bara fjárhagslega gjaldþrota heldur umhverfislega og mér leikur nærri að segja siðferðilega gjaldþrota á þeim stað sem hún er.
Á þessu vakti hv. þm. Guðbrandur Einarsson athygli hér í þingsal fyrr í vikunni og kollegi hans úr bæjarstjórn Reykjanesbæjar, Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs, hefur gert ágætlega grein fyrir afstöðu bæjarbúa til málsins. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill nefnilega læra af mistökum fortíðar. Bæjarráð hefur tjáð stjórnendum PCC á Bakka, sem reynt er að selja kísilverið, að áhugi yfirvalda á því að endurreisa kísilverið í Helguvík sé enginn. Auk þess hefur bæjarstjórn óskað eftir samstarfi við Arion banka um að rífa verksmiðjuna og hefja frekar samstarf um almennilega græna atvinnuþróun í Helguvík.
Við hjá Alþingi þurfum að standa með íbúum Reykjanesbæjar. Við þurfum að hjálpa ríkisstjórninni og eigendum þessarar verksmiðju að leiðrétta mistök fyrri ára. Í því skyni lagði ég til við umhverfis- og samgöngunefnd að við myndum halda opinn fund um þetta mál og á það var fallist í gær. Á þann fund munum við fá bæjarstjórn Reykjanesbæjar, sem mun gera grein fyrir því hvaða verkfæri hún telur sig vanta til að geta staðið (Forseti hringir.) með íbúum bæjarfélagsins, stofnanirnar sem að málinu koma til að lýsa ferlinu, (Forseti hringir.) Umhverfisstofnun sérstaklega til að lýsa afstöðu sinni til 11% aukningar losun gróðurhúsalofttegunda (Forseti hringir.) sem myndi fylgja verksmiðjunni, og síðan Arion banka, (Forseti hringir.) eigandann sem í stefnu sinni vill hafa jákvæð áhrif, bæði á umhverfi og samfélag, sem þessi verksmiðja gerir svo sannarlega ekki.
(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í störfum þingsins er takmarkaður og biður þingmenn að virða það.)