152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nýlega kom svar frá innviðaráðherra við fyrirspurn minni um hlutdeildarlán þar sem fram kemur að á síðasta ári hafi tæplega 300 slík lán verið veitt, 91 til þeirra sem voru undir tilteknum tekjumörkum. Í frumvarpinu sem þetta úrræði kom fram í var gert ráð fyrir að hlutdeildarlán væru fyrir um 400–500 íbúðum á ári í tíu ár. Þarna munar tæpum helming, tæplega 300 af 500 og það vantar enn þá fleiri í rauninni. Við erum í þeirri stöðu á húsnæðismarkaði að það vantar um 4.000 íbúðir þannig að það er þó nokkuð sem vantar. Þetta átti að dekka 4.000–5.000 íbúðir á tíu árum og ef þetta væri hrein viðbót við allt annað þá myndi það að brúa það bil sem er, fylla þá holu sem er á húsnæðismarkaðnum. En það vantar greinilega þó nokkuð þarna upp á þannig að úrræðið virkar ekki eins og ætlast var til. Það þarf greinilega að grípa til einhverra ráða til þess að laga vandann og ná upp alla vega því lágmarki í fjölda íbúða sem þessu úrræði er ætlað að ná, ellegar verðum við í sama vanda og alltaf varðandi skort á íbúðum á húsnæðismarkaði. Það er vandamál sem við höfum glímt við allt síðasta kjörtímabil og raunar lengur. Það er fyrirsjáanlegt að ef þessi úrræði skila ekki þeim árangri sem þau áttu að gera þá verður þetta líka vandamál á þessu kjörtímabili.